Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Æsispennandi og auðlesin glæpasaga um trans stúlku

Mynd: Samsett / RÚV/Forlagið

Æsispennandi og auðlesin glæpasaga um trans stúlku

25.07.2021 - 14:00

Höfundar

„Í Sterk ræðst Margrét ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hún fjallar um unga trans stúlku, um þroskaferil hennar, um viðkvæmar aðstæður innflytjenda og um fórnarlömb mansals,“ segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi Tengivagnsins um bókina Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur.

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar:

Fyrst og fremst er Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur æsispennandi og auðlesin bók – en hún er einnig ýmsilegt annað. Sterk telst til barnabóka og hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár en erlendis yrði hún vafalaust flokkuð með svokölluðum Young adult eða ungmennabókum. Hins vegar má með sönnu segja að hún sé fyrir allan aldur frá um það bil þrettán til fjórtán ára og upp úr og sjálf átti ég erfitt með að leggja hana frá mér fyrr en að lestri loknum.

Margrét Tryggvadóttir hefur á síðustu árum getið sér afskaplega gott orð sem rithöfundur og verið dugleg að skrifa fyrir yngri kynslóðirnar. Meðal bóka hennar má nefna Íslandsbók barnanna og bókina um Kjarval – málarann sem fór sínar eigin leiðir. Fyrir skrif sín hefur Margrét hlotið fjöldann allan af verðlaunum og viðurkenningum, þar á meðal Fjöruverðlaunin, verðlaun starfsfólks bókaverslanna, Íslensku barnabókaverðlaunin, tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og nú, Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.

Í Sterk segir frá ungri stúlku, Birtu, sem er nýflutt til Reykjavíkur að vestan og er í námi í Tækniskólanum. Birta er venjuleg sautján ára stúlka með vonir og væntingar eins og öll ungmenni. En hún er líka trans og þrátt fyrir að hafa vitað það sjálf árum saman er það aðeins nýlega sem hún hefur komið fram sem stúlka. Hún leigir herbergi í kjallara í Miðtúni og þekkir eiginlega engan í bænum en á þó eina vinkonu, Blævi, sem einnig er trans. Meðleigjendur Birtu eru allir af erlendum uppruna; tveir pólskir karlmenn sem deila herbergi og í hinum herbergjunum búa erlendar konur sem stoppa yfirleitt mjög stutt og tala sjaldnast orð í ensku eða íslensku. 

Til að byrja með eru samskipti Birtu við aðra íbúa í kjallaranum nánast engin – og það hentar henni ljómandi vel. Foreldrar hennar og nánustu vinir fyrir vestan tóku því illa þegar hún kom út sem trans og þegar ástandið í skólanum var orðið óbærilegt ákvað hún að flytja til Reykjavíkur og reyna að byrja nýtt líf. En höfnunin og mótlætið fylgja henni að sumu leyti áfram þótt hún sé komin til Reykjavíkur. Til að fá frið fyrir augnagotum og illu umtali fólst lausn Birtu áður í að láta lítið fyrir sér fara og þótt hún sé flutt í Miðtúnið reynir hún áfram að vera ósýnileg. Það á hún raunar sameiginlegt með sambýlingum sínum í kjallaranum. Þótt aðstæður þeirra séu gjörólíkar eiga þau sameiginlegt að vera á jaðri samfélagsins og hafa í raun ekki sama aðgang og aðrir að kerfinu og stofnunum þess. Birta leigir „svart“ og engin pappírsvinna fylgir leigunni – það hentar Birtu mjög vel þar sem hún er enn ólögráða og því alls staðar skráð undir karlmannsnafni. En að sama skapi þýðir þetta að hún er réttindalaus á leigumarkaðnum og í viðkvæmri stöðu. Það sama er auðvitað uppi á teningnum alls staðar annars staðar; í skólanum, í heilbrigðiskerfinu og hjá lögreglunni – alls staðar rekur Birta sig á. Konurnar í kjallaranum eru vegabréfslausar og standa einnig (þó á annan hátt sé) utan við kerfið.  Það kemur fljótt í ljós að þær eiga í erfiðleikum – og þótt Birta vilji fyrst og fremst halda sér til hlés verður þörfin til að hjálpa að lokum óttanum yfirsterkari. Mikilvægi þess að geta tekið sér pláss – og að eiga sér stað og rödd í samfélaginu verður hér afskaplega skýrt. 

Ég minnist þess ekki áður að hafa lesið íslenska bók um trans barn eða ungling og algjörlega frábært að hér sé komin ein slík. Mikilvægi þess að bókmenntir, sem og listir og menning almennt, endurspegli fjölbreytileika mannlífsins verður seint ofmetið. Margrét finnur hér afskaplega góða leið að viðkvæmu efni. Með því að stefna í raun saman tveimur bókmenntagreinum – annars vegar þroskasögu unglings og hins vegar glæpasögu fáum við að sjá Birtu í mismunandi ljósi. Við sjáum hana takast á við þær hindranir sem trans stúlka mætir í samfélaginu en við sjáum hana líka takast á við alls kyns önnur mál og skiljum – eins og mannskepnan þarf að skilja aftur og aftur – að hún er við, kannski bara aðeins hugrakkari en flest okkar. En Margrét setur líka hugrekki í nýtt samhengi. Birta drýgir vissulega hetjudáðir áður en yfir lýkur en það sem höfundurinn gerir svo listavel er að sýna hvað styrkur getur verið margs konar og hvernig það getur krafist jafn mikils hugrekkis að hefja samtal við aðra manneskju og að æða inn í brennandi hús. Birta er nefnilega hugrökk á marga vegu.

Í Sterk ræðst Margrét ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hún fjallar um unga trans stúlku, um þroskaferil hennar, um viðkvæmar aðstæður innflytjenda og um fórnarlömb mansals. Fyrirfram væri hægt að álykta að hér hefði höfundur færst fullmikið í fang og jafnvel hætta á að predikunar- eða fræðslutónn væri undirliggjandi í textanum. En það merkilega er að bókin gengur gríðarlega vel upp og þessi ólíku en mikilvægu þemu spegla hvert annað og styrkja. Þetta er ekki „bara“ bók um að vera trans – af því þetta er líka æsispennandi glæpasaga – og þetta er ekki „bara“ bók um viðkvæma stöðu erlends vinnuafls því þetta er líka saga um ungling. Þannig verður Sterk spennandi og skemmtileg bók sem ætti að höfða til fjölmargra – um leið og hún fjallar um gríðarlega mikilvæg málefni af næmni og hlýju. Sterk er ekki gallalaus bók, sum mál leysast full auðveldlega og einstakar persónur kannski helst til gallalausar en það kemur ekki að sök og sagan rígheldur. Ég veit ekki hvort kennarar unglingadeilda og menntaskóla eru búnir að ákveða bókalista fyrir næsta vetur – en Sterk á heima á þeim öllum og helst þyrftu sem flestir fullorðnir að lesa hana líka – því það er með því að spegla sig í sálarlífi annarra manneskja sem við skiljum heiminn betur og tengjumst. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Margrét hlýtur verðlaun Guðrúnar Helgadóttur