Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Víðir og Þórólfur eiga von á svipuðum tölum næstu daga

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Ísland verður ekki lengur grænt á nýjum lista sóttvarnastofnunar Evrópu og stefnir hraðbyri í rautt. Níutíu og fimm smit greindust innanlands í gær, sem er með því allra mesta á einum degi frá upphafi faraldurs. Sóttvarnalæknir óttast að ekki dugi að hafa eins metra reglu í stað tveggja, eins og ríkisstjórnin ákvað þvert á hans ráð. Yfirlögregluþjónn segir Covid-19 „ömurlegan sjúkdóm” og segir breytingu á litakóðun geta haft miklar afleiðingar fyrir millilandaferðir.

Nálgast metfjölda smita

95 smit greindust innanlands í gær, 75 voru utan sóttkvíar. Þetta er með því mesta sem hefur greinst á einum degi frá upphafi faraldursins. Fjögur eru inniliggjandi á Landspítala, öll bólusett nema eitt. Nú eru 463 með staðfest smit, mikill meirihluti fullbólusettur. Nýgengi innanlandssmita er komið yfir 111. 

„Við eigum von á því að þessar tölur verði sambærilegar næstu daga,” segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

„Ef við værum ekki með bólusetningar værum við örugglega að tala um samkomubann upp á tíu manns.”

Tveir starfsmenn Landspítala og einn inniliggjandi sjúklingur greindust jákvæðir í gær. Tveir sjúklingar og níu starfsmenn fóru í sóttkví og ellefu aðrir í vinnusóttkví. 

„Við erum alltaf viku á eftir. Sama gildir um aðgerðirnar, það tekur eina til tvær vikur að sjá árangurinn af þeim. En ég held að áður en við sjáum þann árangur þá munum við sjá hærri toppa en við erum að sjá núna, mér finnst það mjög líklegt,” segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Hvernig lýst þér á ákvörðun ríkisstjórnarinnar að viðhafa eins meters reglu en ekki tveggja metra eins og þú lagðir til? 

„Ég hefði kosið að hafa hana tveggja metra. Við höfum notast við hana í gegn um þennan faraldur, nema einu sinni slökuðum við á og fórum niður í einn metra og við fengum fljótlega aukningu.”

Missum græna litinn

Ísland mun missa græna litinn á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem gefið verður út á fimmtudaginn kemur. Ef 330 smit í viðbót greinast hér um helgina verður landið rautt.

„Eins og staðan er í dag þá erum við strax orðin appelsínugul þar. Og í næstu útgáfu er orðin töluverð hætta á því að við verðum orðin rauð. Hættan er sú að þá fari aðrar þjóðir að setja strangari reglur um komur og brottfarir til Íslands. Við sjáum bara til hvaða reglur það verða sem við þurfum að uppfylla til að geta ferðast til annarra landa. Líka þeir ferðamenn sem eru að koma þaðan hvort þeir lendi í vandræðum við að komast aftur heim og annað slíkt,” segir Víðir. 

„Svo margt glatað við að fá þetta”

Öll smitin í fjórðu bylgjunni eru delta-afbrigði veirunnar, sem veldur, auk þekktari einkenna, niðurgangi, uppköstum og þar af leiðandi vökvaskorti. 

„Þetta er náttúrulega bara ömurlegur sjúkdómur, ég þekki það af eigin reynslu. Það er svo margt glatað við að fá þetta þannig að ég vona að sem fæstir upplifi þessi miklu veikindi sem geta fylgt þessu. En þó að það séu ekki margir alvarlega veikir, þá er fullt af fólki, og langstærsti hlutinn með talsverð einkenni þó að þau séu ekki að leggjast inn á sjúkrahús. Og að vera með niðurgang í marga daga er ekkert sérstaklega skemmtilegt og sá sem upplifir það finnst það örugglega alvarlegt.” 

Þú finnur ennþá ekkert bragð og enga lykt? 

„Neinei. Mér finnst stundum eins og ég finni einhverja lykt, en það er yfirleitt bara misskilningur.”