Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Það er alveg gredda í þessu“

Mynd: Blair Alexander / Aðsend

„Það er alveg gredda í þessu“

24.07.2021 - 09:00

Höfundar

Heiti King er óður til Rómeós Montague og hans ómótstæðilega kynþokka, sungið af Júlíu Kapúlet. Lagið er eftir Sölku Valsdóttur og er hluti af nýjustu uppsetningu á leikritinu Rómeó og Júlía sem sýnt verður í Þjóðleikhúsinu í haust í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar.

Ebba Katrín Finnsdóttir fer með hlutverk Júlíu í glænýrri uppsetningu á Shakespeare-verkinu Rómeó og Júlía sem sett verður upp í Þjóðleikhúsinu í haust í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Tónlistin í sýningunni er úr smiðju rapparans og tónlistarkonunnar Sölku Valsdóttur. Stífar æfingar voru á verkinu í vor og þær fara aftur af stað af fullum krafti í ágúst ef Guð leyfir, að sögn Ebbu Katrínar. Áætlað er að frumsýningin verði í byrjun september.

Tvíeykið Ebba og Salka hefur sent frá sér fyrsta lagið úr sýningunni, sem nefnist Heiti King og er óður til Rómeós sem túlkaður er af Sigurbjarti Sturlu Atlasyni. „Það er alveg gredda í þessu, þetta er rosalegt finnst mér,“ segir Salka um uppsetninguna í samtali við Lovísu Rut Kristjánsdóttur í Popplandi á Rás 2. „Þetta verður algjör sprenging þessi sýning.“

Salka hefur unnið mikið með Þorleifi Erni, meðal annars í Volksbühne í Berlín, og segir að hann sé ólíkindatól. „Maður veit ekki alveg hvernig sýningin verður fyrr en á frumsýningardaginn. Það er hægt að setja allt inn í sviga fram á síðasta klukkutíma og meira að segja þá,“ segir hún. „Maður hefur heyrt sögur af því að í hléi á frumsýningu segi hann: Prófum kannski að... sleppa þessari senu.“ Ebba tekur undir og hefur heyrt þessar sögur. „Það er búið að búa okkur undir að við mætum aftur með opinn hug og opið hjarta. Þetta er lifandi ferli sem gerist í rýminu,“ segir hún. „Maður þarf hugrekki og óttaleysi, en á sama tíma er þetta mjög frelsandi.“

Í sameiningu hafa þær Ebba og Salka lagst yfir karakter Júlíu og rödd hennar í handritinu til að koma henni á framfæri í tónlistinni. Þær segja rödd Júlíu töluvert takmarkaðri en Rómeós. „Rómeó er með rosalega langa mónólóga þar sem hans innra lífi er lýst rosamikið. Við sjáum það ekki hjá Júlíu,“ segir Salka. Stríð Rómeós sé mikið við sinn innri mann. „Hann skilur ekki hvað hann vill eða hvers vegna honum líður svona illa. Það er eitthvað sem við könnumst við hjá ungum strákum og er mjög algengt í vestræna heiminum, svo það er mjög spennó að skoða það,“ segir Salka. Krísa Júlíu snýr frekar að ytri öflum. „Hún er unglingur sem verið er að þvinga í hjónaband og hennar barátta snýst meira um að kýla til baka og búa sér til pláss.“

Með tónlistinni í verkinu fær Júlía pláss til að láta finna fyrir sér. „Við erum að stækka hennar narratívu og setja mikið af okkar baráttu inn í hana, og hennar persónu.“ Salka segist vilja Júlíu vel og hún nýtur þess að hafa höfundarfrelsi til að lyfta hennar karakter. „Það er magnað og ólíkt flestri leikhústónlist sem ég hef komið að, að fá svona mikið frelsi,“ segir hún.

Heiti King segir hún að sé sannkallaður svefnherbergispoppsmellur. Þær syngja lagið saman. Lagið segir Salka að sé að hluta til óður til stelpna sem gera raftónlist í svefnherberginu sínu.

Rætt var við Ebbu Katrínu Finnsdóttur og Sölku Valsdóttur í Popplandi á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

Látið eins og það séu ekki konur í íslensku rappsenunni

Leiklist

„Er ekki alltaf verið að leita að Rómeó?“