Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir mikilvægast að Ísland verði áfram grænt á kortinu

24.07.2021 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að það myndi hafa svakalegar afleiðingar fyrir greinina ef Ísland yrði rautt á litakóðunarkorti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Hún segir nýjar sóttvarnatakmarkanir vægari en samtökin hafi búist við.

„Auðvitað eru allar takmarkanir hamlandi að einhverju leyti en þær eru mildari en við áttum kannski von á, þannig að heildaráhrif á ferðaþjónustu tel ég að verði ekki mikil, þó vissulega verði einhver áhrif núna af samkomutakmörkunum varðandi hátíðarhöld um verslunarmannahelgina og næstu vikur sem vissulega hafa áhrif á rekstur einhverra fyrirtækja,“ segir Bjarnheiður.

Hún býst ekki við að auknar takmarkanir í veitinga- og skemmtistaðarekstri hafi mikil áhrif á ákvarðanir ferðamanna um að koma hingað til lands. Auknar landamæratakmarkanir myndu hins vegar gera það, það væri til að mynda mjög alvarlegt mál ef skylda ætti alla komufarþega í sóttkví.

„Það myndi einfaldlega leiða til þess að ferðaþjónustan myndi leggjast af, alþjóðleg ferðaþjónusta, þannig að það myndi hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar. Aðalmálið núna hvað þetta varðar er að halda landinu grænu þannig að við verðum ekki rauð. Þar verður þjóðin að leggjast á eitt við að halda niðri smitum til þess að það gerist ekki því það myndi hafa svakalegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna og þjóðarbúið í heild sinni,“ segir Bjarnheiður.