Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðuneyti ógilti flutning barna milli skóla

24.07.2021 - 07:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - RÚV
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins Árborgar um flutning barna úr Sunnulækjarskóla á Selfossi í Stekkjarskóla.

Stekkjarskóli er nýr skóli í bæjarfélaginu og hefst kennsla fyrir 1. til 4. bekk þar í haust. Fyrsta skólaárið verður kennt í bráðabirgðahúsnæði, sem samanstendur af tíu færanlegum kennslustofum og tengibyggingu.

Ætlunin er að hefja svo kennslu í framtíðarhúsnæði skólans haustið 2022. Nemendur verða fluttir með rútu í sund í Sundhöll Selfoss í vetur og í íþróttir í Vallaskóla. Frístundaheimili fyrir 1. bekk verður í Stekkjaskóla en nemendur í 2. til 4. bekk verða fluttir í frístundaheimili í Vallaskóla.

Samkvæmt því sem fréttastofa kemst næst, þá kærðu foreldrar tveggja barna þá ákvörðun sveitarfélagsins að ákveða einhliða að börnin verði flutt úr sínum gamla skóla, Sunnulækjarskóla, í Stekkjarskóla. Niðurstaða menntamálaráðuneytis var sú að flutningur barnanna milli skóla væri stjórnvaldsákvörðun og felldi ráðuneytið  hana úr gildi. Sveitarfélaginu hafi borið að fara að ákvæðum stjórnsýslulaga; það hafi átt að tilkynna um fyrirhugaða ákvörðun um flutning nemenda milli skóla og veita andmælarétt.

Foreldrar segja byggingasvæði allt í kringum skólann

Foreldrnir mótmæltu flutningnum, og lögðu fram kæru, meðal annars á þeim forsendum að ekki hafi verið gætt að tilkynningu um meðferð málsins, andmælarétti, meðalhófsreglu eða reglna um birtingu ákvörðunar og leiðbeiningar henni tengdri. Þá bentu foreldrar á að ekki væri komin íbúðabyggð í hverfinu. Börnin þurfi ekki aðeins að búa við það að framkvæmdir verði við hinn nýja skóla heldur að byggingarsvæði verði allt í kring með tilheyrandi hættu og ónæði. 

Í tilkynningu vef Árborgar, sem birt var 1. júlí, er beðist velvirðingar á stöðunni sem upp sé komin. Þar segir einnig að foreldrar barna í 2. til 4. bekk sem fengu tilkynningu um flutning barns úr fyrri skóla yfir í Stekkjaskóla fái sérstakt bréf þar sem þeim verði gefinn kostur á koma sjónarmiðum sínum og andmælum að, áður en endanleg ákvörðun verði tekin um flutning barns þeirra.

Áhyggjur af því að skólinn verði ekki tilbúinn í haust

Sunnlenska greindi frá því í gær að fimm af tíu færanlegum skólastofum sem nýta á til kennslu í vetur séu komnar á sinn stað og að foreldrar hafi áhyggjur af því að húsnæðið verði ekki tilbúið þegar skólaárið hefst í haust. Þar er haft eftir Tómasi Ellerti Tómassyni, formanni eigna- og veitunefndar Árborgar, að hann hafi skilning á þessum áhyggjum foreldra. Nefndin sjálf bókaði áhyggjur af framgangi verksins í lok júní. 

Mynd með færslu
Nýleg mynd af byggingasvæðinu. Mynd: Jón Sveinberg Birgisson - Aðsend mynd

Haldinn verður stöðufundur með umsjónarmanni verksins í næstu viku, segir Helga María Pálsdóttir, bæjarritari, í samtali við fréttastofu. Þá verður staðan tekin og framhaldið varðandi bygginguna ætti að skýrast.  

Í úrskurði menntamálaráðuneytis segir að það telji vafa undirorpið að það námsumhverfi sem börnunum verður boðið upp á og lýst sé í gögnum málsins sé samrýmanlegt 13. grein laga um grunnskóla þar sem kveðið sé á um að allir nemendur eigi rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem taki mið af þörfum þeirra og vellíðan.