
Niðurstaða Landsréttar í síðasta hrunmálinu stendur
Landsréttur sakfelldi í mars Magnús og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í málinu en sýknaði Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann bankans.
Hreiðari og Magnúsi var þó ekki gerð refsing þar sem þeir höfðu þegar hlotið hámarksrefsingu fyrir efnahagsbrot í fyrri málum sem tengdust fjármálahruninu árið 2008.
Magnús óskaði eftir leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar, en rétturinn féllst sem fyrr segir ekki á það.
Síðasta hrunmálið
Málið, sem kallað hefur verið síðasta hrunmálið, hefur velkst um í dómskerfinu í að verða sex ár.
Það snýr að lánveitingum bankans upp á 508 milljónir evra á haustdögum 2008 en lánin voru samkvæmt ákæru notuð til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank sem tengd voru skuldatrygingaálagi Kaupþings með það að markmiði að lækka skuldatryggingaálag bankans.
Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að lánveitingarnar hefðu stangast á við reglur bankans og verið með öllu óheimilar.
Í rökstuðningi með málskotsbeiðninni bendir Magnús á að hann og aðrir sakborningar hafi tvívegis verið sýknaðir í héraði, áður en Landsréttur felldi dóm sinn. Þá segir hann að Landsréttur hafi ranglega komist að því að veruleg fjártjónshætta hafi verið samfara lánveitingunum og að mat réttarins á skjallegum gögnum samkvæmt 86. til 88. lið dómsins sé bersýnilega rangt.
Enn fremur telur hann að algerlega ósannað sé að ásetningur hans hafi staðið til þess að hin meintu brot yrðu framin.
Hæstiréttur úrskurðaði hins vegar að þau atriði sem um ræðir hafi ekki „verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið“ og taldi því ekki tilefni til að veita áfrýjunarleyfið.