Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Niðurstaða Landsréttar í síðasta hrunmálinu stendur

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í CLN-málinu svokallaða.

Landsréttur sakfelldi í mars Magnús og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í málinu en sýknaði Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann bankans.

Hreiðari og Magnúsi var þó ekki gerð refsing þar sem þeir höfðu þegar hlotið há­marks­refs­ingu fyr­ir efna­hags­brot í fyrri mál­um sem tengd­ust fjár­mála­hrun­inu árið 2008.

Magnús óskaði eftir leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar, en rétturinn féllst sem fyrr segir ekki á það.

Síðasta hrunmálið

Málið, sem kallað hefur verið síðasta hrunmálið, hefur velkst um í dómskerfinu í að verða sex ár.

Það snýr að lánveitingum bankans upp á 508 milljónir evra á haustdögum 2008 en lán­in voru sam­kvæmt ákæru notuð til að kaupa láns­hæfistengd skulda­bréf af Deutsche Bank sem tengd voru skulda­tryg­inga­álagi Kaupþings með það að mark­miði að lækka skulda­trygg­inga­álag bankans.

Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að lán­veit­ing­arn­ar hefðu stang­ast á við regl­ur bank­ans og verið með öllu óheim­il­ar.

Í rökstuðningi með málskotsbeiðninni bendir Magnús á að hann og aðrir sakborningar hafi tvívegis verið sýknaðir í héraði, áður en Landsréttur felldi dóm sinn. Þá segir hann að Landsréttur hafi ranglega komist að því að veruleg fjártjónshætta hafi verið samfara lánveitingunum og að mat réttarins á skjallegum gögnum samkvæmt 86. til 88. lið dómsins sé bersýnilega rangt.

Enn fremur telur hann að algerlega ósannað sé að ásetningur hans hafi staðið til þess að hin meintu brot yrðu framin.

Hæstiréttur úrskurðaði hins vegar að þau atriði sem um ræðir hafi ekki „verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið“ og taldi því ekki tilefni til að veita áfrýjunarleyfið. 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV