Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bóluefni stóðst ekki væntingar og stærsta bylgjan hafin

Mynd með færslu
 Mynd: Zoom - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir yfirstandandi bylgju faraldursins líklega þá stærstu til þessa. Hann vonar að reglur ríkisstjórnarinnar dugi til, en hefði kosið tveggja metra reglu í stað eins metra. Nýgengi innanlandssmita er nú komið yfir 111 og verður Ísland að öllum líkindum bráðum rautt á korti sóttvarnarstofnunar Evrópu. Aðeins fjórum sinnum hafa greinst hér fleiri smit á einum degi, 24. mars og 1. apríl í fyrravor, og 5. og 8. október í fyrrahaust.

Sprauturnar áttu að koma okkur út úr þessu

„Væntingarnar voru þær, og við töluðum öll þannig, að bólusetningin væri það sem mundi koma okkur út úr þessu. Ég hins vegar sagði oft að við þyrftum að vera við því búin að við gætum fengið eitthvað bakslag í þetta. Annaðhvort að bólusetningin mundi ekki virka sem skyldi eða að það kæmu ný afbrigði sem mundu gera hlutina öðruvísi. Annaðhvort yrði þau alvarlegri eða að þau mundu smitast meira. Og það er að gerast núna. Við erum að fá þetta delta-afbrigði sem greinilega er mjög smitandi og það er greinilegt að bólusetningin kemur ekki nægilega vel í veg fyrir smit. Það er líka það sem við erum að fá frá útlöndum, að bólusetningin er að koma í veg fyrir um 60 prósent smita, og jafnvel minna en það, samkvæmt upplýsingum frá Bretlandi.”

Það er greinilegt að veiran er að breiðast gríðarlega hratt út meðal bólusettra og svo verður bara að koma í ljós hvort hún komi í veg fyrir alvarleg veikindi. 

Þurfum að hugsa stærra

Þegar við sjáum að bólusetningin er kannski góð í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi en er ekki eins góð til að koma í veg fyrir smit, þá þurfum við að setjast niður og hugsa til framtíðar og hugsa:

Ókei, þetta virkaði ekki betur en þetta. En þetta er staðan. Nú þurfum við að hugsa til lengri tíma því veiran er ekki að fara að hverfa úr heiminum á næstu mánuðum, jafnvel næsta árið kannski. Ætlum við að viðhafa sóttvarnir á landamærum og hvernig eiga þær að vera? Ætlum við að viðhafa sóttvarnir innanlands? Eða ætlum við að vera í þessu jójói fram og til baka og herða og slaka á víxl? Þetta er það sem við þurfum að ákveða núna til lengri tíma en ekki kannski hvernig við ætlum að eiga við þessa bylgju sem er í gangi. 

Gæti þurft að endurskoða tillögurnar

Hvernig lýst þér á ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hafa eins metra reglu en ekki tveggja metra eins og þú lagðir til?

„Ég hefði kosið að hafa hana tveggja metra. Við höfum notað hana í gegnum faraldurinn, nema einu sinni slökuðum við á og fórum niður í einn metra. Við fengum fljótlega aukningu. En hvort það tengdist því beint veit ég ekki. Svo höfum við verið með eins metra reglu við ákveðna atburði. Það hefur gefist mjög vel og það er það sem ég lagði til núna. En þetta er niðurstaðan og ríkisstjórnin og ráðherra ræður þessu, þannig að við þurfum bara að vinna með það og vonandi mun það skila tilætluðum árangri. Og ég vona að þessar nýju reglur verði til þess að faraldurinn fari niður.

Ef þetta dugar ekki til, og við förum áfram upp, og sjáum miklar afleiðingar, þá þarf ég einfaldlega að endurskoða mínar tillögur. 

Fjögur mikið veik á spítala

„Það eru fjórir inniliggjandi núna á LSH og hátt í 400 manns í eftirliti hjá göngudeildinni, þar af um tíu undir ströngu eftirliti og gætu þurft á innlögn að halda. Það er þó ekki meira en það, en við vitum ekki hvað gerist ef smitin taka að berast inn í viðkvæma hópa. Og eins ef margir starfsmenn á þessum stofnunum, á sjúkrahúsunum og hjúkrunarheimilunum, ef þau fara að smitast, og eru þá dæmdir úr leik og þurfa að fara í einangrun. Það getur sett starfsemina í algjört uppnám. Þannig að afleiðingarnar geta orðið mjög miklar af útbreiddu smiti, ekki bara vegna alvarlegra veikinda heldur líka á starfsemina.” 

Þetta þýðir ekkert að hérna verði allt ömurlegt og svart. Við þurfum bara að stilla væntingunum í hóf og hafa hlutina ekki of íþyngjandi, heldur að þeir komi í veg fyrir verulega útbreiðslu og alvarleg veikindi. Það er það sem þetta snýst um.