Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkin hunsa WHO og kaupa meira bóluefni

epa09227800 US President Joe Biden talks to the media before taking off in Marine One on the Ellipse at the White House in Washington, DC, USA, 25 May 2021. US President Joe Biden Departs White House for Delaware for a few hours Tuesday night.  EPA-EFE/TASOS KATOPODIS / POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - UPI
Bandarísk stjórnvöld hafa tryggt sér 200 milljónir skammta til viðbótar af bóluefni lyfjafyrirtækjanna Pfizer og BioNTech. Nota á þá til endurbólusetningar þeirra sem þegar hafa fengið bóluefni og til að bólusetja börn.

Með samningnum má segja að Bandaríkjastjórn hafi tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) að engu, en forstjóri hennar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, hefur hvatt ríkari lönd til að bíða með hvort tveggja, þriðju bólusetninguna og bólusetningar barna á meðan enn er skortur á bóluefnum í fjölmörgum fátækari ríkjum.

Þótt nokkuð stór hluti Vesturlandabúa sé nú orðinn bólusettur fyrir kórónuveirunni, er staðan ekki jafngóð. Á heimsvísu hafa aðeins 13,6% fullorðinna lokið bólusetningu og 13,5% til viðbótar fengið fyrri skammt af tveimur og víða grasserar veiran sem aldrei fyrr.

Ghebreyesus hefur reynt að sannfæra rík lönd um að það sé þeim í hag að bóluefnum sé dreift með jafnari hætti til að koma í veg fyrir að ný og stökkbreytt afbrigði, sem bóluefni kunna að veita síðri vörn gegn, skjóti upp kollinum.

Segja mætti að ríkari lönd heims standi frammi fyrir freistnivanda, sem minnir á vandamál fangans, skólabókardæmi úr leikjafræði. Það kann að vera ríkari löndum í hag ef þau fylgdu öll ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

En hafandi enga tryggingu fyrir því að önnur rík lönd fylgi þessu, er það í hag hvers og eins ríkis þess að hafa tilmælin að engu og bólusetja eigin þjóð betur.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV