Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrír af fjórum sem veiktust alvarlega eru bólusettir

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Enn fjölgar á COVID-göngudeild Landspítalans, en spítalinn var í gærkvöld færður á hættustig. Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar segir það vonbrigði en að minna virðist um alvarleg veikindi en í fyrri bylgjum.

Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala segir álagið á sjúkrahúsið hafa aukist undanfarið. Í tilkynningu Landspítalans í gær sagði að 301 væri á göngudeildinni.

„Núna bara í morgunsárið eru þeir komnir upp í 370. Þannig að það hafa bæst við sjö tugir en það er ekki búið að flokka þá alla. Það lögðust tveir inn síðdegis í gær.“

Í tilkynningu Landspítalans kemur fram ákvörðunin hafi verið tekin vegna þess að verkefni COVID-göngudeildar aukast daglega, fleiri sjúklingar í eftirliti séu veikir og að fjöldi starfsfólks sé í sóttkví vegna útsetninga og nýlegrar komu erlendis frá.

Mönnun sé með minnsta móti vegna sumarleyfa auk þess sem mikil óvissa ríkir um þróun faraldursins, fjölgun innlagna og hve alvarleg veikindi geti orðið. 

Tíð smit bólusettra koma á óvart

Nú liggja þrír á Landspítalnum með COVID-19. Már segir minna um alvarleg veikindi en áður sem sýni að bóluefnin verji. Hann segir gang sjúkdómsins hjá bólusettum ekki öðruvísi en var hjá óbólusettum áður. 

„Það kemur okkur á óvart að það er meira smit meðal bólusettra en við höfðum átt von á. Af þeim fjórum sem hafa þurft að leggjast inn undanfarna daga eru þrír bólusettir með góðum bóluefnum, AstraZeneca og Pfizer.“

Már segir nokkra þætti geta skýrt það að sumir bólusettir veikist. 

„Þetta getur legið í skammtamagninu sem þú færð þegar þú ert að sýkjast, í eiginleikum veirunnar eða í eiginleikum þíns ónæmiskerfis, hvernig það bregst við.“

Verkefnið vex nái það inn í viðkvæmari hópa

Már segir óvíst hve lengi spítalinn þurfi að vera á hættustigi. Máli skipti hvaða aðgerða ríkisstjórnin ákveður að grípa til og að sátt skapist um þær. Ríkisstjórnin fundar í dag um tillögur sóttvarnalæknis um innanlandsaðgerðir.

Viðfangsefni sjúkrahússins geti orðið viðamikið nái smit inn í eldri og viðkvæmari hópa. 

„Ef þetta kemur inn í hópinn sem stendur höllustum fæti vegna til dæmis vegna ónæmisbælingar, krabbameinssjúklinga eða þess háttar hópa veit ég ekki hversu stórt viðfangsefnið verður.“

Smitum fjölgar mjög, einkum meðal ungs fólk þar á meðal starfsfólks sjúkrahússins. 

„Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og unglæknar eru ungt fólk sem hefur orðið fyrir þessu. Við erum með stóran hóp fólks, yfir tvö hundruð manns, sem eru í ýmiskonar sóttkvíum eða einangrun. Þetta heggur svolítið í okkar getu.“