Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir ástandið tvísýnt og hvetur til varkárni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir mesta áherslu nú lagða á að koma útsettum í sóttkví. Í gær greindust 76 smituð af COVID-19, 54 þeirra teljast fullbólusett. Smit eru dreifð um allt land, sem er ólíkt fyrri bylgjum faraldursins.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir ekki hægt að draga miklar ályktanir af smittölum dagsins. Svipaður fjöldi sýna var tekinn í gær og undanfarið að sögn Víðis. 

„Þetta eru náttúrulega búnar að vera háar tölur. Það koma einhverjir dagar sem eru upp og niður svo kemur stærri dagur á milli þannig að við getum ekki dregið stórar ályktanir af þessu.“

Álag eykst á göngudeild og smit um land allt

Landspítalinn var settur á hættustig um miðnætti og Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar segir álagið á göngudeild COVID hafa aukist undanfarið. 

„Núna bara í morgunsárið voru þeir komnir upp í 370 og bættust við sennilega sjö tugir. Það er ekki búið að flokka þá alla. Það lögðust tveir inn síðdegis í gær.“

Tveir voru lagðir inn á sjúkrahúsið í gær, samtals hafa því fjögur verið lögð inn á sjúkrahúsið í yfirstandandi bylgju. Þrjú þeirra eru bólusett. 

Að sögn Más er minna um alvarleg veikindi en áður sem sýni að bóluefnin verji. Hann segir gang sjúkdómsins hjá bólusettum ekki öðruvísi en var hjá óbólusettum áður.  

Víðir telur enn eiga eftir að fjölga á göngudeildinni. „Það eru nokkrir sem komu inn í nótt sem ekki hefur náðst utan um.“ Smit greinast um allt land og aldursbil smitaðra breitt.

„Já já þetta er bara sama og verið hefur. Við erum með smit um allt land. Það er í fyrsta sinn að við sjáum tilfelli um allt land svona snemma í bylgjunni.“ Þau smituðu eru allt frá ungabarni og sá elsti 77 ára en flestir á aldrinum 20 til 40 ára. 

Allt gert til að koma þeim sem þarf í sóttkví

Allir sem vettlingi geta valdið hafa verið kallaðir út í smitrakningu. Kröftum er þó einkum beint að því að koma þeim í sóttkví sem þurfi. 

„Við erum með mjög margt fólk í vinnu núna að ná til allra og reyna að rekja þessi smit eins og hægt er og koma þeim sem eru útsettir í sóttkví. Við erum minna að reyna  að rekja hvaða fólk  smitaðist. Það kemur í framhaldinu hjá okkur.“

Víðir óttast að smitum haldi áfram að fjölga að óbreyttu. Hann segir ástandið tvísýnt og hvetur fólk til að fara varlega.

„Nei ég er hræddur um að þetta haldi svona áfram og meðan að hegðunin er óbreytt að fólk er bara út um allt að hittast og djammið er í gangi. Þá held ég að þetta haldi áfram að dreifast. Það er nokkuð ljóst held ég.“