Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Samið um vegalagningu í Gufudalssveit

23.07.2021 - 23:22
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerdin
Í dag náðist samkomulag milli Vegagerðarinnar og landeigenda Grafar í Þorskafirði um vegalagningu í Gufudalssveit. Deilur um framkvæmdir á svæðinu hafa staðið í um tvo áratugi. Jafnframt var samið um að umhverfissjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi við hönnun vegarins en landeigendur Grafar hafa staðið gegn framkvæmdinni vegna áhrifa hennar á náttúruna.

„Vegagerðin og eigendur Grafar eru á einu máli að standa vel að verki og vanda frágang eins og kostur er.  Landeigendur Grafar hafa staðið gegn framkvæmdinni með hagsmuni náttúrunnar að leiðarljósi og verið í forgrunni í þeirri baráttu. Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi framkvæmdaleyfi hafa þeir hins vegar unnið að því með Vegagerðinni að laga framkvæmdina sem best að landi innan landamerkja Grafar þannig að hún hafi sem minnst inngrip í náttúruna.“

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. 

Framkvæmdirnar hófust sumarið 2020 en þá var hafist handa við endurbyggingu Vestfjarðavegar frá Skálanesi í Gufudal. Gert er ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu á næstu vikum. Í vor hófust þá framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum og er 260 metra löng brú í byggingu sem stendur. Næsta skref verksins er þá að leggja Djúpadalsveg, fimm kílometra langan veg, sem mun tengja Djúpadal við nýjan Vestfjarðaveg.