Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Salan hrundi í júní en selst nú eins og heitar lummur

23.07.2021 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Sala á einnota hönskum, grímum og spritti hrundi í júní samkvæmt upplýsingum frá hreinsiefnaframleiðanda. Eftir smittölur vikunnar hefur salan rokið upp að nýju og ljóst er að fólk er að búa sig undir nýja bylgju.

 

Einar Kristjánsson framkvæmdastjóri Rekstrarvara segir að sala á spritti hafi tífaldast í fyrra en dregist mikið saman í sumar þegar engin smit greindust. Eftir fund almannavarna í gær hafi orðið gífurleg aukning á sölu á grímum, spritti og hönskum.  

Mörg fyrirtæki segja að það sé krafa viðskiptavinarins að fyrirtækin bjóði þeim að spritta á sér hendurnar. Það er hans mat að svo verði áfram. „Við vitum hvað þarf að gera og greinilegt er að fólk er aftur farið að huga að persónulegum sóttvörnum. Þegar faraldurinn byrjaði var skortur á handspritti en svo er ekki núna,“ segir Einar.

Fyrirtækið Tandur er efnafyrirtæki sem framleiðir hreinsiefni fyrir matvælaiðnaðinn.  Í maí í fyrra urðu hanskar, grímur og spritt söluhæstu vörur fyrirtækisins.  Páll Sævar Guðjónsson sölu og þjónustufulltrúi segir að í sumar hafi salan á þessum vörum nánast hrunið. „Eftir smittölur vikurnar þá hefur salan tekið mikinn kipp. Það eru allir að byrgja sig upp og það er greinilegt að fólk er að búa sig undir nýjan faraldur“, segir Páll Sævar.

Það kemur honum ekki á óvart að salan rjúki upp núna. Hann segir að fyrirtækið hafi verið tilbúið og hafi byrgt sig upp til að mæta fjölgun smita.  Tandur h.f. er efnaverksmiðja sem framleiðir hreinsiefni fyrir matmælaiðnaðinn. „Þetta snarbreyttist í maí 2020 þá urðu þessar vörur söluhæstar hjá okkur“, segir Páll Sævar Guðjónsson.

 

Arnar Björnsson