Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ógnandi gengi situr um keppendur á Rey Cup

23.07.2021 - 10:29
Rey cup
 Mynd: Rey cup - Ljósmynd
Tíu manna gengi hefur setið um Laugarnesskóla í Reykjavík síðustu tvö kvöld. Þar gista keppendur á alþjóðlega fótboltamótinu Rey Cup og hefur hópurinn verið ógnandi í framkomu við keppendur, hent eggjum í þá og unnið skemmdarverk.

Stjórn Rey Cup vekur athygli á stöðunni í íbúahópi Laugarneshverfis á Facebook. Þar segir að gengið hafi setið um skólann milli klukkan 22 og miðnættis. Gengið sé á bíl og sé skipulagt í sínum verkum. Meðlimir þess eru sagðir 18 til 20 ára gamlir. 

Málið komið til lögreglu

Um tvö þúsund keppendur taka þátt í Rey Cup, í 3. og 4. flokki í fótbolta. Keppendur eru á aldrinum 13 til 16 ára. Eggin, sem hópurinn hefur hent, hafa bæði hafnað utan á skólanum og inni í honum. Þau hafa lent á ferðatöskum keppenda, á dýnum og í fötum þeirra. Í tilkynningunni segir að það versta sé að börnin hafi einnig orðið fyrir eggjaskotahríðinni. Að sögn Gunnhildar Ásmundardóttur, framkvæmdastjóra Rey Cup, þá er málið nú í höndum  lögreglu. 

Biðja nágranna að vera á verði

Stjórn Rey Cup hefur biðlað til fólks í hverfinu að leggjast á árar með þeim og fylgjast með í nágrenninu og tilkynna strax til lögreglu ef það sér til hópsins. „Það ríkir mikil ókyrrð meðal keppenda og foreldra þar sem hópurinn er ógnandi og er þetta því orðið lögreglumál,“ segir í tilkynningunni. 

„Við viljum biðja ykkur kæru nágrannar í Laugarneshverfi, að vera með augun opin í allan dag/kvöld og næstu daga. Þetta er að eiga sér stað á daginn og á kvöldin. Ef þið verðið vör við eða vitni af einhverju slíku næstu daga viljum við biðja ykkur um að hringja beint í lögregluna, hún veit af málinu og er að fylgjast með þessum skólum,“ segir í tilkynningu stjórnar Rey Cup í íbúahópnum á Facebook. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir