Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kemur til greina að halda þjóðhátíð síðar í ágúst

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RUV
Nú er ljóst að ekki verður af þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgi fremur en öðrum stórum mannamótum en nýjar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti annað kvöld. Fjöldatakmarkanir miðast við 200 manns, eins metra nálægðarregla verður tekin upp og börum og skemmtistöðum verður gert að loka á miðnætti. Hörður Orri Grettisson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, segir þetta mikil vonbrigði og að það sé til skoðunar að halda þjóðhátíð seinna í ágúst en nýju reglurnar eru í gildi til 13.ágúst.

Gríðarleg vonbrigði 

 „Allt hátíðarsvæðið er komið upp, þetta eru gríðarleg vonbrigði.  Eftir þennan maraþonfund var maður að vonast til að það kæmi eitthvað annað upp úr hattinum en boð og bönn, “ sagði Hörður Orri Grettisson í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum nú klukkan 19. 

Kemur til greina að fresta hátíðinni um einhvern tíma

Hörður hafði vonast eftir því að nánar hefði verið skoðað að hleypa gestum inn á stærri viðburði gegn því að það hefði farið í sýnatöku og framvísað neikvæðri niðurstöðu. Hörður Orri segir þá jafnframt koma til greina að fresta hátíðinni um nokkurn tíma. 

 „Við erum auðvitað búin að ræða málin. Það var kannski alveg vitað í hvað stefndi og það er einn möguleiki hjá okkur að fresta hátíðinni um einhverja daga eða vikur, “ segir Hörður Orri.  

Sérð þú fyrir þér að þjóðhátíð verði jafnvel haldin síðar í ágúst? 

„Já, já. Hérna er allt hátíðarsvæðið komið upp og við erum búin að fá allan búnað hingað. Auðvitað þurfum við að tala við fólk og hvort þetta sé framkvæmanlegt en það er alveg klárlega möguleiki, “ segir Hörður Orri. 

Blendnar tilfinningar meðal Eyjamanna

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja, segir blendnar tilfinningar vera meðal Eyjamanna. Mikil tilhlökkun hafi að sjálfsögðu verið til staðar. 

„Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir okkur að halda þessa hátíð og fá þessa gesti sem hafa verið að koma til okkar. Hún er mjög mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna, gistiþjónustuna og íþróttafélagið þar sem að 80% af börnum í Vestmannaeyjum stunda æfingar. Við þurfum að bregðast við þessu en við Vestmannaeyingar erum nú þekktir fyrir að takast á við erfiða hluti og standa saman, “ sagði Njáll Ragnarsson í viðtali við Bjarna Rúnarsson, fréttamann.