Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Katrín: Höfum fylgt sóttvarnalækni og höldum því áfram

Mynd: Hjalti Stefánsson / RUV
Nýjar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti annað kvöld en þá verða 200 manna fjöldatakmarkanir, eins metra nálægðarregla og veitingastöðum og börum gert að loka á miðnætti. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þessar reglur byggi á tillögum sóttvarnalæknis. Ríkisstjórnin hafi fylgt tillögum hans til þessa í faraldrinum og haldi því áfram nú.

Katrín segir að bólusetning hér á landi hafi gengið mjög vel og Íslendingar geti hrósað happi því enn hafi ekki orðið vart við alvarleg veikindi í þessari bylgju vegna Covid-19 smita. „Við höfum þegar hafið í raun og veru ákveðna stefnumótunarvinnu með það hvernig við sjáum framtíðina í bólusettu Íslandi því það skiptir auðvitað máli að fólk hafi ákveðinn fyrirsjáanleika nú þegar við erum komin þangað. 

Hún segir að það sé eining í ríkisstjórninni og samstaða um þessar nýju reglur. Það hafi ekki verið tekist hart á á þessum ríkisstjórnarfundi. „Við höfum alltaf gefið okkur tíma til að fara vel yfir þessi mál því þau varða þjóðina alla og okkar leiðarljós hefur verið að vernda líf og heilsu og lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif og við getum sagt að við erum að lágmarka veikindi og reyna að hámarka frelsi fólks til athafna og það er vandasamt verk,“ segir Katrín.