Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hittast á Egilsstöðum og tilkynna svo sóttvarnaaðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórnin kemur saman til fundar klukkan 16 í dag til að ræða tillögur sóttvarnalæknis að hertum aðgerðum innanlands. Fundurinn verður á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. Þetta er gert í ljósi þess að nær allir ráðherrarnir eru á faraldsfæti og þetta reyndist rökréttasta staðsetningin.

Mánaðarafmæli í dag

Það eru nákvæmlega fjórar vikur síðan þjóðin fagnaði þeim merka áfanga að öllum sóttvarnaaðgerðum var aflétt innanlands, á miðnætti föstudagsins 25. júní. Við tók algjört frelsi í fjöldasamkomum, skemmtistaðir máttu standa opnir langt fram eftir nóttu, grímuskylda var afnumin og sprittið fór ofan í skúffu. Landamærin voru sömuleiðis galopin og allt fylltist fljótlega af erlendum ferðamönnum. 

Næstu tvær vikurnar fannst eitt og eitt smit, en fyrir viku síðan, föstudaginn 16. júlí, greindust 13 manns innanlands með delta-afbrigðið. Þremur dögum síðar greindust 38 smit, svo 56, 78 og tölur dagsins voru 76. 

Minnisblað sent í gær

Í gær tók við kunnuglegt stef, sem hófst klukkan ellefu með upplýsingafundi almannavarna þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að heilbrigðisráðherra fengi frá honum enn eitt minnisblaðið með tillögum að aðgerðum. Hann vildi ekki greina frá innihaldi minnisblaðsins, en undirstrikaði að við vissum svo sem hvað hefði virkað fram til þessa. 

Þar á sóttvarnalæknir væntanlega við grímuskyldu, sprittnotkun, fjarlægðartakmörk, fjöldatakmarkanir og að öllum líkindum styttan opnunartíma skemmtistaða. Langflest smitin sem greinast nú má rekja til skemmtanalífs í miðbænum.  

Allir úti á landi

Ekkert heyrist úr herbúðum ríkisstjórnarinnar annað en að þar virðast margir vera á faraldsfæti og að þau hittast á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan 16 síðdegis í dag. Ekki er talið líklegt að formlegur blaðamannafundur verði haldinn þar sem ákvarðanir ríkisstjórnarinnar verða tilkynntar, en þau veita viðtöl að fundi loknum. Flestir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa talað nokkuð opinskátt um afstöðu sína til hertra aðgerða og það sem þau segja skerðingu á frelsi, þó að þau leggist ekki gegn tillögum sóttvarnalæknis eða heilbrigðisráðherra.