Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gripið til fleiri varúðarráðstafana á Landspítala

23.07.2021 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Inniliggjandi COVID-sjúklingar á Landspítala eru nú orðnir þrír. Þá eru 369 í eftirliti á göngudeild COVID, þar af 28 börn. Sjö starfsmenn eru í einangrun, 14 í sóttkví og 229 í svokallaðri vinnusóttkví. Landspítali var færður á hættustig í gær.

 

Í ljósi fjölgunar smita í samfélaginu hefur verið gripið til fleiri aðgerða til viðbótar við þær sem nú eru við lýði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítala í dag. 

Sjá einnig: Þrír af fjórum sem veiktust alvarlega eru bólusettir

 

Smitsjúkdómadeild spítalans er ekki opin að fullu vegna fjölgunar COVID-sjúklinga á deildinni. Búist er við að þeim fjölgi á næstu dögum. Jafnframt er leitað leiða til að taka upp matarskömmtun og matarsendingar á deildir á ný. Þangað til er biðlað til starfsfólks að gæta sérstakrar varúðar í matsal og á kaffistofum. 

Þá er verið að vinna að hótelúrræði fyrir starfsfólk sem getur ekki dvalið heima hjá sér vegna smits, vinnusóttkvíar og eins ef einhver á heimili starfsmanns er í sóttkví. 

Í tilkynningu frá Landspítala kemur fram að viðbragðsstjórn og farsóttanefnd fundi daglega og þá er lagt mat á stöðu spítalans. Eftir fundi er greint frá efni fundarins svo sem nýjum reglum og tilmælum.