Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dagskrá íslensku keppendanna á Ólympíuleikunum

epa09359596 

Flag Bearers of Iceland Snaefridur Sol Jorunnardottir and Anton Mckee enter the stadium during the Opening Ceremony of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Olympic Stadium in Tokyo, Japan, 23 July 2021.  EPA-EFE/RITCHIE B. TONGO
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Dagskrá íslensku keppendanna á Ólympíuleikunum

23.07.2021 - 15:11
Ísland á fjóra fulltrúa á Ólympíuleikunum í Tókýó, sundfólkið Anton Svein McKee og Snæfríði Sól Jórunnardóttur, skotmanninn Ásgeir Sigurgeirsson og kringlukastarann Guðna Val Guðnason. Dagskrá íslensku keppendanna má sjá hér fyrir neðan.

Íslenski hópurinn hefur ekki verið jafn fámennur á sumarólympíuleikum í 57 ár, síðan árið 1964, en þannig vill til að þá voru leikarnir líka haldnir í Tókýó. 

Ásgeir Sigurgeirsson - Skotfimi

Skotmaðurinn Ásgeir Sigurgeirsson ríður á vaðið á sínum öðrum Ólympíuleikum og keppir í 10 metra loftskammbyssu í nótt. Undankeppnin hefst klukkan 4:00 og ef Ásgeir kemst í úrslit hefjast þau í fyrramálið klukkan 6:30. Sýnt verður beint frá úrslitunum. Ásgeir vann sér inn kvótapláss á leikunum en hann var nálægt úrslitum á Ólympíuleikunum í London árið 2012 og hefur í samtali við fréttastofu sagst vera í svipuðu formi nú. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Ásgeir Sigurgeirsson einbeittur í keppni.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir - Sund

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir keppir í tveimur greinum í Tókýó, 100 og 200 metra skriðsundi. Snæfríður synti undir B-lágmarki í 200 metra skriðsundi í mars en þó það hafi ekki dugað til þá á Ísland rétt á sæti fyrir eina konu og einn karl í sundi, óháð lágmörkum. Snæfríður fékk því úthlutað sætum í báðum greinunum. Þetta eru fyrstu Ólympíuleikar Snæfríðar. Hún stingur sér til sund í undanrásum 200 metra skriðsundsins á mánudagsmorgun en útsending frá sundi hefst klukkan 10. Hún syndir svo 100 metra skriðsundið á miðvikudagsmorgun og bein útsending hefst þar sömuleiðis klukkan 10. 

Mynd með færslu
 Mynd: SSÍ
Snæfríður Sól á fleygiferð í lauginni.

Anton Sveinn McKee - Sund

Anton Sveinn tryggði sér upphaflega sæti í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum á Heimsmeistaramótinu í 50 metra laug sem fram fór í Suður-Kóreu árið 2019. Hann er eini keppandi Íslands sem náði lágmarki og fór ekki inn á leikana á úthlutuðu sæti. Þetta verða þriðju Ólympíuleikar Antons sem keppti einnig í London 2012 og Ríó 2016. Anton syndir í undanrásum á þriðjudagsmorgun, 27. júlí, og útsending frá keppni sundi hefst klukkan 10 þann dag. Undanúrslitin í 200 metra bringusundinu fara fram miðvikudaginn 28. júlí og úrslitin á fimmtudag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Anton Sveinn syndir bringusund.

Guðni Valur Guðnason - Kringlukast

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason kastaði nálægt Ólympíulágmarkinu í aðdraganda leikanna en náði markinu þó ekki. Hann fékk úthlutuðu kvótasæti þar sem hann var með bestan árangur íslensks frjálsíþróttafólks. Þetta verða aðrir leikar Guðna Vals en hann var einnig meðal keppenda í Ríó árið 2016. Guðni Valur mun kasta í undankeppni kringlukastsins sem verður hluti af frjálsíþróttaútsendingunni sem hefst rétt fyrir miðnætti fimmtudaginn 29. júlí.  

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Guðni Valur Guðnason.

Íslenskir þjálfarar

Auk keppenda Íslands verða fimm íslenskir þjálfarar í eldlínunni með keppendur frá öðrum löndum. Vésteinn Hafsteinsson, kastþjálfari í frjálsíþróttum, þjálfar sænska kringlukastarann Daniel Ståhl sem er ríkjandi heimsmeistari í kringlukasti og þykir sigurstranglegur í greininni á leikunum í ár. Ståhl gæti orðið annar íþróttamaðurinn sem Vésteinn þjálfar sem vinnur gull á Ólympíuleikum en Eistinn Gerd Kanter gerði það í Peking árið 2008. Vésteinn þjálfar sömuleiðis kringlukastarann Simon Pettersson og kúluvarparann Fanny Roos.

Auk Vésteins verða fjórir handboltaþjálfarar á leikunum. Alfreð Gíslason mun stýra þýska karlalandsliðinu í handbolta, Dagur Sigurðsson stýrir því japanska og Aron Kristjánsson landsliði Barein. Þórir Hergeirsson verður svo á sínum stað með norska kvennalandsliðið sem hefur harma að hefna eftir brons á síðustu Ólympíuleikum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík: Kolbrún Þóra Löve - EPA
Vésteinn, Þórir, Dagur, Aron og Alfreð verða á hliðarlínunni í Tókýó.

Íslendingar í fimleikasalnum

Íslendingar munu líka hafa sitt að segja í fimleikasalnum en dómararnir Hlín Bjarnadóttir og Björn Magnús Tómasson voru í júlí valin af Alþjóða fimleikasambandinu til að dæma á Ólympíuleikunum. Hlín og Björn eru tveir af reyndustu dómurum Íslands í áhaldafimleikum en þetta verða fjórðu leikarnir sem Björn dæmir og þeir fyrstu hjá Hlín.

Auk þeirra mun fimleikakonan Eyþóra Elísabet Þórsdóttir keppa fyrir hönd Hollands á leikunum. Hún á íslenska foreldra en hefur búið í Hollandi frá barnsaldri. Þetta eru aðrir leikar Eyþóru en hún hafnaði í 9. sæti í fjölþraut á Ólympíuleikunum í Ríó. 

Nákvæma dagskrá RÚV á leikunum má nálgast hér. 

Mynd með færslu
 Mynd: FSÍ
Hlín Bjarnadóttir og Björn Magnús Tómasson munu dæma fimleika á leikunum.