Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

200 manna fjöldatakmarkanir og barir loka á miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RUV
200 manna fjöldatakmarkanir taka gildi, eins metra nálægðarregla og börum og skemmtistöðum verður gert að loka á miðnætti. Þetta eru nýjar sóttvarnareglur sem taka gildi á miðnætti annað kvöld en ríkisstjórnin grípur til þeirra vegna fjölgunar smita hér á landi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi fylgt ráðum sóttvarnalæknis til þessa og ætli sér að halda því áfram.

 

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar ræddu nýjar sóttvarnaaðgerðir vegna faraldursins hér, á fundi á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum sem hófst klukkan fjögur. Á fundinum voru ræddar tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem hann sendi heilbrigðisráðherra í gær með tillögum að hertum sóttvörnum sem hefðu virkað fram til þessa. Þar á sóttvarnalæknir líklega meðal annars við grímuskyldu, fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir.

76 kórónuveirusmit greindust hér á landi í gær og smit eru dreifð um allt land. Nokkur óvissa er um bæjar- og útihátíðir þessa helgi og næstu vegna nýrra sóttvarnareglna. Það er búið að slá af Berjadaga í Ólafsfirði sem áttu að vera um helgina en forsvarsmenn Mærudaga á Húsavík og Bræðslunnar á Borgarfirði eystra stefndu að því fyrr í dag að halda sínu striki en fylgjast grannt með takmörkunum. 

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson kemur ekki fram á tónleikum í félagsheimilinu Fjarðarborg á Borgarfirði eystra í kvöld eins og til stóð. Jónas er í sóttkví ásamt öðrum liðsmönnum hljómsveitar hans. Tónleikarnir eru hliðarverkefni Bræðslunnar sem verður á Borgarfirði eystra annað kvöld.