Vill að spítalinn geri upp COVID-fórnir í lok faraldurs

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Formaður Læknafélags Íslands telur að spítalinn þurfi að bæta starfmönnum upp þær fórnir sem þeir hafi fært í heimsfaraldrinum. Tilmæli um að búa til sumarkúlu og forðast mannamót séu stórt inngrip í einkalíf fólks. Þá eigi læknar margir á hættu að réttur þeirra til símenntunar fyrnist vegna faraldursins. 

Mikið inngrip en skilningur

Tilmæli Farsóttarnefndar Landspítala um að starfsfólk takmarki mjög samskipti sín við aðra til að forðast smit leggjast misvel í mannskapinn, sumir starfsmenn hafa lýst vonbrigðum sínum á Twitter. 

Sjá einnig: Starfsmenn Landspítala hvattir til að búa til sumarkúlu

„Þetta er náttúrulega verulegt inngrip inn í prívatlíf starfsmanna en við sýnum því bara mikinn skilning, við læknar erum daglega að fást við veikt fólk í okkar störfum og þegar staðan er orðin eins og hún er núna er í sjálfu sér ekki um annað að ræða en að samþykkja þessar tillögur,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands.  

Skilur að fólk sé þreytt

Í samtali við Vísi segist Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga skilja þreytu kollega sinna sem hafi staðið vaktina lengi. Þetta sé fórnarkostnaður sem ekki sé metinn til launa. Hún hvetur til að sameinast um að gæta að sóttvörnum svo heilbrigðisstarfsfólk geti notið sumarfrísins.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðbjörg Pálsdóttir

Símenntunarréttur fyrnist

Reynir telur að í lok faraldurs þurfi að fara fram einhvers konar uppgjör milli Landspítala og heilbrigðisstarfsfólks. Hann nefnir sérstaklega símenntun lækna. Lög kveða á um að þeir sæki námskeið reglulega, oft erlendis. Í rúmt ár hafa læknar átt erfitt með þetta og ólíkt því sem gildir um aðrar starfsstéttir þá fyrnast námsréttindi þeirra að mestu um áramót. „Þetta er samtal sem við verðum að eiga. Það verður að koma til móts við okkur og núna sérstaklega eftir að farið var að skerða sumarleyfi hjá okkur og setja takmarkanir á það hvernig við getum nýtt það,“ segir Reynir.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV