Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Viðsnúningur hjá Icelandair milli ára

22.07.2021 - 20:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Uppgjörs annars ársfjórðungs hjá Icelandair Group var birt í Kauphöll fyrr í kvöld. Þar kemur fram að félagið hóf að auka umsvif sín á ný í öðrum ársfjórðungi þegar eftirspurn eftir flugi og ferðalögum jókst. Lausafjárstaða félagsins styrktist verulega í fjórðungnum vegna mikillar aukningar í bókunum á flugi á seinni helmingi ársins.

Í tilkynningunni kemur fram að handbært fé frá rekstri nam 8,2 milljörðum króna (65,0 milljónum dala) samanborið við neikvætt handbært fé frá rekstri að fjárhæð 12,2 milljarðar króna (96,8 milljónir dala) á sama fjórðungi í fyrra sem er aukning um 20,4 milljarða króna (161,8 milljóna dala).

Handbært fé og lausafjársjóðir 24 milljarðar króna

Lausafjárstaða félagsins í lok fjórðungsins nam 45,6 milljörðum króna (362,5 milljónum dala), þar af handbært fé og lausafjársjóðir að fjárhæð 24,0 milljarðar króna (190,5 milljónir dala), sem er aukning um 10,1 milljarða króna (80,6 milljónir dala) í fjórðungnum.  Einnig segir í tilkynningunni að tekjur af fraktflutningum félagsins jukust um 35% á milli ára en félagið hefur viðhaldið svipuðu flutningsmagni og fyrir COVID um nokkurt skeið. Horfur í fraktflutningum eru áfram góðar.

Lokaniðurstaðan ræðst af þróun faraldursins

Þrátt fyrir bætta afkomu á félagið enn nokkuð í land með að ná fyrri umsvifum að fullu. Þannig er flugframboð Icelandair í júlí um 43% af framboði félagsins í júlí 2019 á meðan framboð á öðrum ársfjórðungi var einungis 15% af framboði á sama tíma 2019, að því er kemur fram í tilkynningunni. Sætanýting í júlí er áætluð um 70% samanborið við 47% í öðrum ársfjórðungi 2021. Miðað við núverandi horfur er gert ráð fyrir að flugframboð muni aukast enn frekar í ágúst og sætanýting sömuleiðis. Félagið segir lokaniðurstöðuna ráðast af þeim áhrifum sem þróun faraldursins og ferðatakmarkanir hafa á eftirspurn.