Tjaldsvæðið fullt svo vikum skiptir

22.07.2021 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Í hlýindunum síðustu vikur hafa landsmenn flykkst á tjaldsvæði á Norður- og Austurlandi. Víða hafa tjaldsvæðin fyllst svo vísa hefur þurft gestum frá. Á Hömrum við Akureyri hefur verið fullt meira og minna frá lokum júní.

Allir starfsmenn að sinna gestum

Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæðanna á Akureyri, segir að það hafi verið þétt hjá þeim á tjaldsvæðunum og þá sérstaklega á Hömrum. „Við höfum verið með að meðaltali um 2000 manns allar nætur frá því í síðustu vikunni í júní og það virðist ekki vera neitt lát á fjöldanum,“ segir Tryggvi.

Ekki hafa áður verið svona margir samfleytt á tjaldsvæðinu. Það er aldrei hlé. „Starfsfólkið getur ekkert annað gert en að þjónusta tjaldgesti. Þeir 22 starfsmenn sem við erum með sinna þeirri þjónustu eingöngu en komast ekki í slátt, hirðingu og viðhald,“ segir Tryggvi.

Trúir ekki rigningarspánni

Tjaldsvæðið á Hömrum er mjög stórt þannig að oftast er laust pláss fyrir nýja gesti. Þegar hitinn fór upp í 26 gráður í vikunni urðu gestir þó frá að hverfa. 

Samkvæmt veðurspám ætti að byrja að rigna um helgina. Tryggvi er þó ekki á því að gestum fari að fækka. „Ég treysti nú ekki þessari rigningarspá þannig að við búum okkur undir að halda bara svona áfram,“ segir Tryggvi.