Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snæfríður og Anton fánaberar á setningarhátíðinni

Mynd með færslu
 Mynd: ISI - RUV

Snæfríður og Anton fánaberar á setningarhátíðinni

22.07.2021 - 10:18
ÍSÍ tilkynnti í morgun fánabera Íslands á setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó. Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn McKee verða fánaberar Íslands á setningarhátíðinni sem fram fer á morgun, föstudaginn 23. júlí. Setningarhátíðin hefst kl. 11:00 að íslenskum tíma og mun RÚV sýna beint frá hátíðinni.

Þetta verður í fyrsta skipti sem fánaberar þátttökulandanna eru tveir, ein kona og einn karl. Á leikunum í Tókýó er nánast jafn fjöldi kvenkyns og karlkyns keppenda og hafa hlutföllin aldrei verið jafnari á nokkrum Ólympíuleikum. Er stefnt að því að á leikunum í París 2024 verði fullu jafnvægi náð í fjölda keppenda af hvoru kyni.

Íslenski hópurinn, með Anton Svein og Snæfríði Sól í fararbroddi, mun verða fyrstur inn á leikvanginn á eftir gríska hópnum sem alltaf gengur fyrstur inn á leikvanginn á öllum Ólympíuleikum og flóttamannaliði Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC Refugee Olympic Team). Farið er eftir japanska stafrófinu og þess vegna raðast Ísland fremst þjóða.
Síðastir inn á leikvanginn verða gestgjafarnir, þ.e. Japanir, en á undan þeim næstu gestgjafar, þ.e. Bandaríkin og Frakkar. Þetta fyrirkomulag er nýjung á setningarhátíð Ólympíuleika.