Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slefpróf á fjögurra daga fresti fyrir fjölmiðlafólk

Mynd: EPA / EPA

Slefpróf á fjögurra daga fresti fyrir fjölmiðlafólk

22.07.2021 - 20:03
Fjölmiðlafólk á Ólympíuleikunum í Tókýó þarf að taka Covid-próf á fjögurra daga fresti. Prófin eru þó ekki eins og við Íslendingar erum vön þar sem sýni eru tekin úr nefi eða hálsi heldur eru prófin í Tókýó slefpróf.

Fulltrúar RÚV á Ólympíuleikunum ræddu slefpróf og ýmislegt fleira í nýju hlaðvarpi, Íþróttavarpi RÚV, sem sent verður út daglega á meðan á leikunum stendur. 

Íþróttafréttamennirnir Einar Örn Jónsson og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson eru í Tókýó ásamt Sigurbirni Árna Arngrímssyni, frjálsíþróttalýsanda, og Maríu Björk Guðmundsdóttur, framleiðanda og kvikmyndatökukonu. Fílingurinn í hópnum er góður en eftir bilun í bókunarbúnaði hjá British Airways og tveggja klukkutíma seinkun á flugi komust þau loks á hótelherbergi í Tókýó eftir 28 klukkutíma ferðalag.

Sóttvarnarreglur eru að vonum til staðar á svæðinu en Einar Örn segir hitamæla vera úti um allt og hitamæla þarf alla áður fólk fari inn í byggingar á svæðinu. Tvö Covid-próf þurfti áður en hópurinn lagði af stað til Japan og svo tóku þau sömuleiðis próf á flugvellinum við lendingu í Tókýó. Fulltrúar RÚV sluppu vel og þurftu einungis að vera í þrjá tíma á vellinum en dæmi voru um fólk sem hafði beðið í allt að tíu klukkutíma eftir niðurstöðum. 

Covid-prófin vöktu athygli hópsins en þau eru ekki tekin með sýnatökupinnum í nef eða háls eins vaninn er víða. Í Tókýó eru nefnilega skimað fyrir Covid-19 með slefprófum. „Manni er bara rétt eitthvað glas og tregt og svo á maður bara að slefa ofan í glasið,“ segir Þorkell Gunnar. Slefið þarf svo að uppfylla ákveðna staðla, ekki má vera í því froða eða matur og alls ekki blóð. 30 mínútum áður en prófið er tekið má svo ekki hafa borðað, drukkið, reykt eða notað munnskol.

Einar Örn, Þorkell Gunnar, María Björk og Sigurbjörn Árni ræddu upplifun sína af fyrsta deginum í Tókýó, heimsókn í Ólympíuþorpið, sóttvarnarreglur og það sem fram undan er á leikunum í þætti dagsins.

Brot úr þættinum má heyra í spilaranum hér fyrir ofan, þátturinn í heild sinni er aðgengilegur í spilara RÚV og verður von bráðar aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Íþróttavarp RÚV verður auk þess á dagskrá öll virk kvöld á Rás 2 klukkan 18:10 á meðan Ólympíuleikunum stendur.