Nú er vitað um 160 miltisbrandsgrafir á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Sigurðarson
Vitað er um 160 miltisbrunagrafir við 130 bæi víðs vegar um landið. Sumarið 2017 hófu hjónin Sigurður Sigurðarson dýralæknir og Ólöf Erla Haraldsdóttir að merkja þekktar miltisbrunagrafir í landinu.

Frá þessu er greint í Bændablaðinu en undanfarin ár hafa komið fram upplýsingar um áður óþekktar grafir. Sjúkdómsins varð fyrst vart á Íslandi á sjöunda áratug 19. aldar og er talinn hafa borist hingað með ósútuðum, hertum dýrahúðum frá Afríku.

Merkingunni er ætlað að koma í veg fyrir að gróum miltisbrandssýkilsins verði rótað upp úr jarðveginum en dvalargró hans geti lifað áratugum og jafnvel öldum saman í jarðvegi.

Miltisbruni eða miltisbrandur getur verið bráðdrepandi verði smit í öndunarfærum en húðsýking er þó algengust og getur hún einnig verið banvæn.

Í samtali við Bændablaðið segist Sigurður vonast til að ómerktum sýktum stöðum fari nú fækkandi, en hann ætli að halda ótrauður áfram.

Hann segir viðbrögð ráðamanna ekki vera í takt við alvarleika málsins enda skori umræða um hættulegar grafir manna og dýra ekki hátt á pólítískum vinsældalistum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV