Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hundrað komast í bólusetningu í höfuðborginni á dag

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ásókn í bólusetningu hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist mikið síðustu daga. Framkvæmdastjóri lækninga segir að líklega verði fólki sem fékk Janssen-efnið ekki gefin önnur sprauta fyrr en í ágúst, en heilsugæslan bíði fyrirmæla sóttvarnalæknis. 

Liggur á að fá sprautu

Heilsugæslan fær þessa dagana fjölda símtala frá fólki sem liggur á að komast í bólusetningu, fjölgun smita spilar þar stórt hlutverk. Í gær fengu 200 manns sprautu á Suðurlandsbraut. „Við ráðum ekki við það með öllum þessum sýnatökum líka þannig að við höfum þurft að takmarka okkur við um hundrað á dag,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Janssen-þegar fá aukasprautu frá Pfizer

Til skoðunar er að efla ónæmissvar þeirra um það bil 50 þúsund landsmanna sem fengu Janssen, með annarri sprautu. Bóluefnið virðist veita svipaða vörn og annar skammturinn af bóluefni AstraZeneca. Sigríður telur þrátt fyrir stöðuna ekki þörf á að kalla fólk inn úr sumarfríi til þess að hefja fjöldabólusetningar á ný. „Við munum fara í þessa aukasprautu strax og við fáum fyrirmæli um sem verður væntanlega bara um miðjan ágúst.“ Það tæki um þrjá daga að bólusetja þau 30. 000 sem fengu Janssen á höfuðborgarsvæðinu, ungt fólk, kennara, utangarðsfólk og áhafnir skipa og flugvéla. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í morgun að viðbótarsprautan yrði líklega með bóluefni Pfizer. 

Aftur grímuskylda á heilsugæslustöðvum 

Forsvarsmenn heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu funda um stöðuna og viðbrögð við henni í dag, til stendur að taka aftur upp grímuskyldu og fjarlægðarmörk á heilsugæslustöðvum og skjólstæðingar sem finna fyrir minnstu einkennum sem bent gætu til COVID-smits eru beðnir um að koma ekki á heilsugæsluna nema að undangenginni skimun. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV