Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hrúti bjargað úr sjálfheldu

22.07.2021 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: Hjálparsveitin Tintron - RÚV
Hjálparsveitin Tintron sinnti fremur óhefðbundnu útkalli í gærkvöld en henni barst tilkynning um fjórar kindur á bjargbrún í Tindaskaga neðan Skjaldbreiðar. Talið var að þær hefðu verið þar í um tvær vikur og virtust þær vera í sjálfheldu á brúninni. Þegar menn hjálparsveitarinnar komu á staðinn var þó einungis einn hrútur eftir.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu hjálparsveitarinnar Tintron en hjálparsveitin er hluti af Slysavarnafélaginu Landsbjörg. 

Í fyrstu var reynt að hreyfa við hrútnum með dróna en það bar ekki mikinn árangur og því var tekin ákvörðun um að síga að honum. Þá tók hrúturinn af stað og tókst honum að lækka sig neðar í brattann þegar hann endaði á byltu. Hrútnum varð þó ekki meint af og hélt hann sína leið.  

Sex manns frá hjálparsveit Tintron ásamt tveimur frá björgunarsveitinni Ingunni á Laugarvatni komu að björgunaraðgerðinni. Þá var einnig bóndi með í för sem hafði hund meðferðis ef til þess hefði komið að hundurinn hefði þurft að ná fénu. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af hrútnum á brúninni: