Hitinn á Norðurlandi eykur vatnsnotkun

22.07.2021 - 09:39
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Vatnsnotkun á Norðurlandi hefur verið með öðru móti en í venjulegu árferði sökum hárra hitatalna síðustu vikur. Forstjóri Norðurorku segir að kaldavatnsnotkun sé í hámarki í umdæminu í hitunum en heitavatnsnotkun í lágmarki.

Fólk setur úðara í gang eftir vinnu

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, segir að kaldavatnsstaða sé góð en það sé því að þakka að leysingar fóru seint af stað í sumar og voru miklar. Það komi sér vel nú því sjaldan hefur hitinn verið eins hár og varað eins lengi og síðustu vikur.

Helgi segir að toppur hafi verið í kaldavatnsnotkun síðustu daga. „Við höfum orðið að dæla eiginlega alla seinniparta, svona frá klukkan fimm, sex á daginn, þegar fólk kemur greinilega heim og setur upp úðarana. Svo fellur aftur niður notkunin um tíuleytið um kvöldið,“ segir Helgi.
 

Vonast eftir rigningu

Aðra sögu sé hins vegar að segja af fráveitukerfi bæjarins og ekki komi mikið vatn þar inn. Ofanvatn og rigning bætist ekki inn í fráveitukerfið og eins er óvenju lítið notað af heitu vatni þannig að það þornar svolítið í kerfunum.

Helgi segir þessu fylgi ekki mikil vandkvæði enn sem komið er. „Þetta er svolítið sérkennilegt og öðruvísi, en ef þurrkatími gengur lengra inn í ágústmánuð þá er ekki víst að vorleysingarnar dugi langt inn í hann. Við, eins og aðrir auðvitað, vonum að það komi rigning og vökvi okkur aðeins,“ segir Helgi.