Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hingað kemur fólk til að skemmta sér hvaðanæva að“

Mynd: RÚV / RÚV

„Hingað kemur fólk til að skemmta sér hvaðanæva að“

22.07.2021 - 16:00

Höfundar

„Ég átti það stundum til að taka úr mér tennurnar, fara upp á svið og syngja Megas,“ segir Sigurður Hafberg, fastagestur á Vagninum á Flateyri. Á síðustu þrjátíu árum hefur Vagninn orðið einn helsti skemmtistaður Vestfjarða.

Vagninn á Flateyri er sögufrægur skemmtistaður. Guðbjartur Jónsson rak Vagninn um árabil og gerði hann að eftirsóttum stað fyrir skemmtikrafta og um leið fyrir gesti. Nú hefur hópur fólks tekið sig saman um að reka Vagninn í sumar og halda fornri frægð hans á lofti. 

Það eiga sér eflaust margir skemmtilegar og kannski svolítið skrautlegar sögur af sér á Vagninum. Sigurður Hafberg er einn þeirra sem á margar slíkar en hann hefur verið fastagestur Vagnsins í áratugi. 

„Þetta var mikill djammstaður eins og var á þessum tíma,“ segir Sigurður sem hefur verið tíður gestur alveg frá því að Guðbjartur Jónsson hélt úti grillstað og myndbandaleigu. Ákveðin vatnaskil hafi orðið þegar hann breytti Vagninum í veitingastað. „Það var alveg nýtt fyrir menn að geta farið og fengið sér öl og svoleiðis.“ Sigurður segir að eftir Guðbjart hafi margir rekið Vagninn en enginn komist með tærnar þar sem hann hafði hælana. „Það muna allir eftir Guðbjarti.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Hafberg hefur verið tíður gestur á Vagninum til fjölda ára.

Á Vagninum hafa allar stærstu og flottustu hljómsveitir landsins spilað og mikil fjör ríkt yfir staðnum. Nýir rekstraraðilar halda í við þessa hefð staðarins og halda ýmsa viðburði á borð við tónleika og uppistand hverja helgi og flest virk kvöld. Steinþór Helgi Arnsteinsson, sumarvagnstjórinn eins og hann kallar sig, segir þetta hlutverk stórt og mikið.   

 

„Þetta sýnir hvað djammið og að hafa gaman getur haft góð áhrif fyrir samfélög,“ segir Steinþór en Vagninn sem bar er orðinn þrjátíu ára gamall og skapar mikið líf í þessu litla þorpi. „Hingað kemur fólk til að skemmta sér hvaðanæva að.“  

„Þetta er rosaleg törn,“ segir Steinþór. Þau eru búin að vera að vinna nánast alla daga frá snemma morguns til seint að nóttu. „Kannski ég skreppi bara á Hornstrandir og skilji eftir símann,“ segir hann um hvað taki við. Líklegt sé þó að þau endurtaki leikinn næsta sumar.  

Sigurður segir það skipta miklu máli fyrir litla bæi að hafa staði eins og Vagninn. „Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að geta hist og geta fengið sér öl eða kaffi,“ segir hann.  

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Fá aldrei nóg af óbyggðunum

Tónlist

Sjómannsdóttir fékk langþráð símtal frá Vitafélaginu

Menningarefni

Blása lífi í gömul torfhús

Mannlíf

Sefur undir björtum himni allar nætur