Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Helmingur fullorðinna íbúa ESB ríkjanna bólusettur

epa09184812 People receive a shot of COVID-19 vaccine at the Cologne Central Mosque in Cologne, Germany, 08 May 2021. Citizens of Cologne can receive a shot of AstraZeneca vaccine within the mosque premises without previous registration.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tvö hundruð milljónir fullorðinna íbúa í Evrópusambandsríkjum eru fullbólusettar gegn kórónuveirunni, það er rúmlega helmingur íbúanna. Hröð útbreiðsla delta-afbrigðis veirunnar veldur þó áhyggjum.

Tilkynnt var um bólusetningarárangurinn í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í dag. Betur má þó ef duga skal, þar sem áformað var að bólusetja allt að sjötíu prósent íbúanna í sumar.

Á sama tíma berast slæmar fréttir af útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar, því sem skaut upp kollinum á Indlandi síðastliðið haust. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í dag að hún væri í veldisvexti þar í landi um þessar mundir. Hún skoraði á Þjóðverja að láta bólusetja sig sem fyrst. Hver sprauta væri lítið skref í átt að eðlilegu lífi á ný. Ástandið er víðar slæmt í Evrópu, svo sem á Spáni og í Hollandi.

Christine Lagarde, yfirmaður seðlabanka Evrópu, varaði við því í dag að stöðug fjölgun smitaðra af delta-afbrigðinu ylli efnahagsóvissu í evruríkjunum. Að hennar sögn er efnahagsástandið á evrusvæðinu nú viðunandi, en útbreiðsla veirunnar, einkum delta-afbrigðisins, veldur áhyggjum. Versni staðan enn frekar kann að draga úr efnahagsbatanum, að sögn Lagarde, einkum í ferðaþjónustu og í gisti- og veitingageiranum. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV