Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hatrið lifir enn meðal okkar“

22.07.2021 - 16:30
Mynd: EPA-EFE / NTB
Norðmenn minntust þess í dag að tíu ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum í Útey og Ósló. Hatrið lifir enn meðal okkar, sögðu núverandi og fyrrverandi forsætisráðherrar Noregs í minningarræðum sínum í dag.

Það var friðsælt um að lítast á Útey í morgun, staðnum sem fyrir tíu árum varð vettvangur hryllilegustu fjöldamorða í sögu Noregs. Þess var minnst á eynni í dag. Minningarathöfn var einnig haldin í Ósló. 

„Þetta var svo hræðilegt að það getur verið erfitt að meðtaka það, en það er engu að síður okkar ábyrgð. Við höfum enn ekki náð að stoppa hatrið. Ögfa-hægristefna er enn við lýði. Hryðjuverkamaðurinn var einn af okkur,“ sagði Astrid Hoem, leiðtogi ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins í dag. 

Forsætisráðherra Noregs sagði í minningarorðum að dagurinn í dag snerist ekki bara um að heiðra minningu þeirra 77 sem voru myrt þennan dag. Baráttan gegn hatri og öfgum standi enn.

„Við vitum að þau sem lifðu af árásirnar í Útey frá enn reglulega hótanir. Það er algjörlega óásættanlegt. Það sýnir okkur líka að við verðum að halda áfram að berjast gegn rasisma og hatri. Við getum ekki gefist upp fyrir hatrinu,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.

Í sama streng tók Jens Stoltenberg, sem var forsætisráðherra þegar árásirnar voru gerðar. 

„Skotmarkið var Verkamannaflokkurinn og ungliðahreyfing hans. Fólk var drepið vegna skoðana sinna. Fyrir tíu árum síðan mættum við hatri með ást. En hatrið lifir enn meðal okkar,“ sagði Stoltenberg.

Hér á landi stóðu ungir jafnaðarmenn fyrir minningarathöfn í minningarlundinum í Vatnsmýri. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV