Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gosið í Fagradalsfjalli fer greinilega minnkandi

Gos byrjað aftur 2. júlí 2021.
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd
Mælingar á meðalhraunrennsli í gosinu í Fagradalsfjalli sýna svo ekki er um að villast að gosið fer minnkandi. Þó er enn of snemmt að spá fyrir um hve lengi gosið muni standa í viðbót.

Þetta kemur fram í nýrri færslu á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands sem þeir Magnús Tumi Guðmundsson, Sæmundur Ari Halldórsson og Joaquin M. Belart skrifa undir.

Þar segir að nýjar mælingar hafi verið gerðar á mánudag 19. júlí, en þá flaug mælingavél Isavia, TF-FMS, og gerði sniðmælingar af hrauninu. Að auki komu inn gögn úr Pleiades gervitunglinu frá 2. júlí. Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við gögnin frá 26. júní.

Niðurstöður sýni að meðalhraunrennslið yfir tímabilið 26. júní – 2. júlí (6 dagar) var rúmlega 10 rúmmetrar á sekúndu en fyrir 2.-19. júlí (17 dagar) er meðalrennslið 7,5 rúmmetrar á sekúndu. 

Í færslunni segir: „Gosvirknin breyttist í lok júní.  Þá tók virknin að sveiflast milli tímabila með öflugu hraunrennsli og síðan kyrrum tímabilum á milli.  Mælingarnar nú sýna að hraunflæði hefur dregist verulega saman. Gosið er því greinilega minnkandi.

Hraunið er nú 96 millj. rúmmetrar og flatarmálið rétt tæpir 4 ferkílómetrar. Aukning í flatarmáli hefur verið mjög lítil síðustu þrjár vikur enda hefur hraunið að langmestu leyti safnast fyrir í Meradölum og í brekkunni vestan þeirra.  Undafarnar tvær vikur hefur ekkert hraun runnið í Geldingadölum, Nátthaga og í Syðri Meradölum.“ 

Fjögur mismunandi tímabil gossins

Í færslunni segir þá að eftir breytinguna í lok júní sé eðlilegast að skipta gosinu í fjögur tímabil:

Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu hraunrennsli, að meðaltali um 6 m3/s.   

Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana.  Hraunrennsli var nokkuð breytilegt, á bilinu 5-8 m3/s.  Eftir þetta tímabil hefur virknin verið öll í einum gíg.

Þriðja tímabilið stóð í tvo og hálfan mánuð og endaði í lok júní.  Hraunrennsli var lengst af nokkuð stöðugt, um 12 m3/s.  Hraun rann ýmist í Geldingadali, Meradali eða Nátthaga. 

Fjórða tímabilið hófst í lok júní.  Það einkennist af kviðukenndri virkni.  Þegar hraunrennsli er í fullum gangi virðist það svipað og var á þriðja tímabilinu, en síðan koma langir kaflar með litlu eða jafnvel engu hraunrennsli.  Mælingarnar í júlí sýna að meðalrennslið fer nú greinilega lækkandi. Það mælist 7,5 m3/s og því aðeins 60-65% af því sem var lengst af í maí og júní. 

Frábrugðið gosum undanfarinna áratuga

Áfram segir í færslunni: „Gosið í Fagradalsfjalli er um margt frábrugðið þeim gosum sem við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi.  Flest gosin hafa átt upptök í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss.

Í Fagradalsfjalli virðist þessu vera nokkuð öðruvísi varið.  Þar er svo að sjá að aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði mestu um kvikuflæðið.  Rásin sem opnaðist var tiltölulega þröng og löng (nær niður á ~17 km dýpi) og flutningsgetan takmörkuð.  Aukning í hraunflæði með tíma fyrstu sex vikurnar bendir til þess að rásin hafi víkkað heldur með tímanum, sennilega vegna rofs í veggjum hennar. 

Á síðustu þremur vikum hefur rennslið minnkað og bendir það til þess að þrýstingur fari nú minnandi í kerfinu.  Þetta gæti verið merki um að farið sé að síga á seinni hlutann í gosinu.  Of snemmt er þó að reyna að spá fyrir um hve lengi gosið muni standa.“