Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrstu einkenni COVID geta líkst ertingu frá gosmóðu

Eldgosið í Geldingadölum í Fagradalsfjalli 23. mars 2021.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sérfræðingur í loftgæðum segir að fyrstu einkenni COVID-19 geti líkst þeim óþægindum sem skapast geta af völdum gosmóðu. Mökkurinn sem legið hefur yfir suðvesturhluta landsins er nokkurra daga gamall.

Gosmóða hefur verið áberandi á suðvesturhluta landsins undanfarið. Hún hefur einkennandi blágráan lit og verður til þegar brennisteinsdíoxíð (SO2), önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka.

Móðan getur valdið margvíslegum óþægindum, þar á meðal flensueinkennum, jafnvel hjá fullfrísku fólki. Þorsteinn Jóhannesson sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun segir mögulegt að fyrstu einkenni COVID geti líkst ertingu af völdum móðunnar. 

„Kannski þessi óþægindi í hálsi, geta ekki fyrstu COVID einkenni verið þannig? En yfirleitt er ekki hiti eða höfuðverkur með þessu. Ekki svona mikill höfuðverkur eins og í COVID og ekki niðurgangur eins og í COVID.
Já fyrstu einkenni á COVID gætu verið lík þessarri ertingu frá gosmóðunni.“ 

Þorsteinn tekur undir orð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að gruni fólk smit skuli það fara í sýnatöku. Hann hvetur fólk jafnframt til að fylgjast með loftgæðum á vef Umhverfisstofnunar.

Mökkurinn er nokkurra daga gamall

Þótt móðan geti skapað óþægindi stafar ekki mikilli hættu af henni. Hækkun mælist á svifryki og jafnvel gasi.

„Við höfum ekki talað um að þetta sé beinlínis hættulegt fyrr en þetta er komið í mjög mikinn styrk sem hann hefur ekki farið í. Fólk getur fundið fyrir einhverjum einkennum, sviða í hálsi og jafnvel í augum.“ 

Einkennin gangi hratt yfir og fólki er ekki ráðlagt að halda sig inni nema styrkurinn fari mjög hátt. Þó er brýnt fyrir foreldrum að láta ekki ungabörn sofa úti. 

Mökkurinn kemur ekki beint frá gosstöðvunum í Geldingadölum.  

„Eins og hefur komið fram þá er þetta ekki þessi venjulegi gosmökkur sem er að berast beint frá eldstöðinni, heldur er þetta svona eldri. Það er stundum í fræðunum talað um þroskaðan gosmökk,“ segir Þorsteinn.

„Það er þá mökkur sem er kannski tveggja þriggja daga gamall. Og hefur kannski verið á einhverjum þvælingi jafnvel farið eitthvað hérna vestur fyrir landið og er að koma til baka.“

Þá hafi brennisteinsdíóxíð hvarfast við súrefni yfir í súlfat-agnir sem eru þær agnir sem mælast á svifryksmælum. Þorsteinn segir brennisteinsagnir geta valdið súru regni og í miklu magni til langs tíma aukið tæringu á þökum og yfirborðsflötum bygginga.