Föt sviðnuðu af drengjum í aftursæti bíls

22.07.2021 - 13:44
Erlent · Innlent · Bílaleigur · Bílar · Erlent · Noregur · Samgöngumál
Myndir úr einkasafni - EKKI NOTA
 Mynd: Arnar Þórisson - RÚV
Bilun í bílaleigubíl varð til þess að föt sviðnuðu aftan af tveimur íslenskum drengjum. Faðir drengjanna, Arnar Þórisson, sagði í viðtali við fréttastofu að drengirnir hefðu kvartað undan kláða í fótum, stuttu áður en þeir æptu upp fyrir sig og í ljós komu stór göt á fötum þeirra.

Fjölskyldan, sem er á ferðalagi í Noregi, leigði tvinnbíl af gerðinni Toyota Yaris til að komast ferða sinna í nokkrar klukkustundir. Bræðurnir Uni og Funi Arnarssynir, sem eru sex og tíu ára, sögðu við foreldra sína að þeim þætti skrítin lykt í bílnum, sem síðar kom í ljós að var vegna bilunar í rafgeymi undir aftursætunum. 

„Móðir þeirra lítur svo aftur í og þá öskrar annar strákurinn og stendur skyndilega upp úr sætinu“ segir Arnar.

Lögregla, slökkvilið og sprengjusveit kölluð út

Efnaleki úr geymi bílsins olli því að lófastór göt sviðnuðu á buxur þeirra. Þeir hlutu ekki alvarlega brunaáverka en fjölskyldunni var skiljanlega brugðið.

Lögregla og slökkvilið komu á staðinn og voru föt og húð bræðranna skoluð með vatni til þess að fjarlægja óþekkta efnið úr fötum þeirra og af húð. Einnig kom sprengjusveit norsku lögreglunnar á vettvang og tók stroksýni úr sætum bílsins. Fjölskyldan fékk aðhlynningu á heilsugæslu, en drengirnir hlutu fyrsta stigs brunaáverka. Læknar könnuðu einnig öndunarfæri fjölskyldunnar, en ekki er talið þau hafi andað að sér hættulegum efnum.

„Bílaleigan sagðist aldrei hafa heyrt af slíkri bilun áður“ segir Arnar. Fyrirtækið endurgreiddi fjölskyldunni allan kostnað af bílnum og greiddi fyrir lækniskostnað.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ólöf Rún Erlendsdóttir