Einn tilgangur náms er að læra félagsleg samskipti

Mynd: Grímur Sigurðsson / RÚV
Formaður Kennarasambands Íslands, segir mikilvægt að tryggja eins eðlilegt skólastarf og unnt er í haust. Ungu fólki sé félagslegt samneyti afar mikilvægt.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands segir niðurstöður kannnana um áhrif á andlega líðan ungs fólks á COVID tímum skuggalegar. Hópurinn berji sér ekki á brjóst, heldur þjáist í hljóði.

Hann segir samfélagið búa að því að hafa farið í gegnum nokkar bylgjur, ekki sé ástæða til að æðrast, en ekki sé hægt að halda áfram að trúa á einhverja töfralausnir.

Ekki megi trúa að faraldurinn sé búinn í eitt skipti þegar einhverjum áfanga sé náð. 

Sýni þurfi ábyrgð, hafa hemil á sér og færa fórnir svo komið verði í veg fyrir sifellt bakslag. Leikskólar eru að hefja starfsemi eftir Verslunarmannahelgi og grunn- og framhaldsskólar síðar í haust. 

Stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld þurfi að miða aðgerðir að því að ná eins eðlilegu samfélagi og hægt er í kringum skólabyrjun. Sóttvarnalæknir og almannavarnir þurfi að svara því hvað gera þurfi.

Koma þurfi í veg fyrir að skólanemendur lokist inni í höftum sóttvarnaráðstafana.

„Það er einfaldlega þannig að við verðum að reyna að tryggja ungu fólki að það lokist ekki aftur inni í þeim höftum sem voru á þeirra lífi. Skóli er svo miklu meira en stofnun sem deilir upplýsingum á milli kynslóða. Skóli er samfélagslegur vefnaður,“ segir Ragnar.

„Þetta er samfélagið sem ungt fólk tilheyrir og félagsskapurinn og félagslífið og þessi félagslega vídd skiptir gríðarlega miklu máli og það er meira en að segja það að kippa þeirri vídd út.“

Ragnar segir tilgang náms ekki aðeins að safna að sér staðreyndum, heldur að læra að tilheyra samfélagi og það felist í samskiptum. Ungt fólk hafi ekki safnað upp þeirri reynslu og því þurfi samfélagið að taka ábyrgð á því og verja þann hóp. 

„Og við sem erum með áratuga reynslu við að tilheyra samfélagi getum stigið til baka og fundið okkar samskiptum annan farveg tímabundið. En við líðum samt fyrir það. Við söknum þessara mannlegu samskipta.“ 

Ragnar segir mikilvægt að verja skólanemendur. „Þetta er hópur sem þarf að verja alveg eins og við þurftum að verja aldrað fólk og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá er þetta viðkvæmur hópur sem gleymist því miður of oft kannski vegna þess að hann hefur ekki atkvæðaseðla.“