Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Biðla til fólks undir þrítugu að bíða með heimsóknir

22.07.2021 - 17:31
Mynd: Matthias Zomer / Pexels
Mikil áhersla hefur verið á verndun viðkvæmra hópa í tilmælum sóttvarnalæknis. Nú þegar smitum fjölgar ört í samfélaginu hefur víða verið gripið til aðgerða, svo sem á Landspítala og á dvalarheimilum aldraðra. Hrafnista sendi út bréf til íbúa og aðstandenda í dag.

Biðla til ungs fólks að bíða með heimsóknir 

„Það sem við vorum að taka upp í dag var grímuskylda fyrir starfsfólk, aðstandendur og alla gesti sem koma í hús. Svo erum við líka að biðla til fólks sem er yngra en 30 ára að bíða með að koma í heimsókn til okkar á meðan að smit í þeim hópi eru svona algeng, “ sagði Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, mannauðsstjóri Hrafnistu, í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag. 

Funda reglulega og meta aðstæður

Jakobína segir að neyðarstjórn heimilanna fundi eins oft og þörf er á og að ákvarðanir verði teknar í takt við stöðu faraldursins. Aðgerðirnar sem gripið var til í dag eru þá fyrst og fremst hugsaðar til þess að íbúar Hrafnistu geti lifað sem eðlilegustu lífi áfram. Með þessu móti geti þeir áfram fengið gesti en Jakobína segir flesta aðstandendur vera komna yfir þrítugt. 

Mikill skilningur meðal íbúa og starfsmanna 

 „Við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá íbúum og einhverjum aðstandendum. Þetta er bara það sem þarf að gera núna, “ segir Jakobína. 

Starfsmenn Hrafnistu, sem eru um 1600 talsins, eru vonsviknir yfir stöðunni eins og flestir aðrir, að sögn Jakobínu.  En viðbrögð starfsmanna við tilmælunum hafi þó verið góð. Mikill skilningur sé meðal starfsmanna og hafi margir þeirra hætt við mannamót næstu helgar í ljósi aðstæðna. Engin sérstök tilmæli eru þó til staðar fyrir starfsfólk um hegðun utan vinnu.