Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Afkoma Landsbanka batnar um 17,4 milljarða

22.07.2021 - 15:06
Landsbankinn
 Mynd: Landsbankinn - Ljósmynd
Afkoma Landsbankans á fyrri hluta árs var rúmir 14 milljarðar króna en á sama tímabili í fyrr tapaði bankinn 3,3 milljörðum. Þetta er 17,4 milljarða aukning milli ára. Hagnaður bankans á seinni ársfjórðungi nam 6,5 milljörðum króna. Þessa uppsveiflu má meðal annars rekja til efnhagssamdráttar síðasta árs, sem reyndist þó minni en margir spáðu.

Þetta kemur fram í uppgjöri Landsbankans fyrir fyrri hluta árs, sem birt var í dag.

Heildareignir bankans stóðu í 1.677 milljörðum króna á fyrri hluta árs, sem er 113 milljarða króna aukning.

Á seinni ársfjórðungi þess árs var arðsemi eigin fjár bankans 10,8%, samanborið við -2,7% á síðasta ári. Hreinar vaxtatekjur námu 19 milljörðum króna á fyrri hluta þessa árs en það er sama fjárhæð árið áður.

„Uppgjör bankans fyrstu sex mánuði ársins er afar gott; arðsemi eiginfjár er góð, kostnaður lækkar og traust afkoma var af öllum starfsþáttum. Merkjanleg aukning er í eignastýringu og markaðshlutdeild bankans hefur aldrei verið hærri“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

Lilja segir ljóst að áhugi landsmanna á fjárfestingum í verðbréfasjóðum og hlutabréfum hefur aukist verulega. Á fyrri hluta árs stofnaði því dótturfélag bankans, Landsbréf, tvo nýja sjóði. Nú hefur félagið stofnað þriðja sjóðinn, Horn IV, sem ætlaður er fagfjárfestum og mun hann líta dagsins ljós á næstunni.

Arðsemi eiginfjár bankans var 9,8% á seinni ársfjórðungi, sem er nokkur aukning frá 0,6% arðsemi á sama tíma árið 2020.