„Við erum að truflast við hlökkum svo til“

Mynd: Íris Dögg Einarsdóttir / RÚV

„Við erum að truflast við hlökkum svo til“

21.07.2021 - 14:20

Höfundar

Suðureyri er eins og Kardemommubærinn samkvæmt Ólafíu Hrönn Jónsdóttur sem fór þangað ásamt hljómsveit sinni, Gertrude and the Flowers, á síðasta ári. Þær heilluðust svo af bænum að þær völdu hann sem staðsetningu fyrir útgáfutónleika sem fram fara á föstudag.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona hefur síðustu mánuði staðið í ströngu við að æfa sig á gítarinn sem hún leikur á í hljómsveitinni Gertrude and the Flowers. Hún lýsir sjálfri sér sem pönkgítarista og kveðst vera svakalega góður ryþmagítarleikari. „Ég hef aldrei verið að spila klassískt eða plokka eða svoleiðis en ég hef verið að pönkast á gítarnum í svolítið mörg ár,“ segir Ólafía í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ólafía lætur til sín taka á tónlistarsviðinu. Með Tómasi R. Einarssyni gerði hún plötuna Koss árið 1995 þar sem hann mundaði kontrabassann og hún söng. „Ég var einnig í kvennahljómsveit sem heitir hljómsveit Jarþrúðar sem var meira þægindapopp. En þetta er meira pönk, ég hef aldrei verið að öskra áður,“ segir Ólafía sposk.

Síðustu tvö ár hafa sannarlega verið krefjandi fyrir heimsbyggðina og Ólafía segir að öskur og pönk séu mjög eðlileg viðbrögð við ástandinu. „Þetta hafa verið mjög skrýtin tvö ár og við sömdum einmitt lag sem heitir COVID og er á Spotify,“ segir Ólafía. „En nú erum við að koma með fimm ný lög sem við vorum að taka upp í vor og eru að detta inn sjóðheit.“

Á föstudag koma Geirþrúður og blómin fram á nokkurs konar útgáfutónleikum á Suðureyri. Staðsetningin var valin þegar konurnar í bandinu voru á ferð um landið á síðasta ári og heilluðust algjörlega. „Mér fannst þetta voðalega krúttlegur bær, pínu svona Kardemommubær. Það var svona miðbær og allir í góðu skapi og mér fannst eins og öllum líkaði við mig,“ segir Ólafía um Suðureyri.

Tónlist Geirþrúðar og blómanna lýsir Ólafía sem ljóðapönki. Lögin eru sungin við ljóð eftir Ásdísi Óladóttur söngkonu sem hefur gefið út fjöldann allan af ljóðabókum. „Við göngum í ljóðasafnið hennar. Búum til tónlist og setjum ljóðin inn eða öfugt,“ segir Ólafía um sköpunarferlið. „Þetta eru mjög persónuleg ljóð og við erum allar með henni í þessu, að flytja ljóðin hennar.“

Hljómsveitarmeðlimir eru átta og tilurð hennar var sú að trommuleikarinn spurði Ólafíu hvort hún vildi vera með í hljómsveit. Ásdís ljóðskáld stóð hjá og sagði: Ég skal vera söngkona. Fyrr en varði voru þær orðnar átta. „Það var rosa gaman. Við sögðum: við skulum ekkert ákveða hvað við búum til, við skulum bara sjá hvað gerist,“ rifjar Ólafía upp. „Við vorum allar spenntar hvað myndi gerast og við svona fikruðum okkur áfram.“ Þær þekktust ekki allar fyrir stofnun sveitarinnar en í dag eru þær mjög nánar. „Félagsskapslega smullum við saman. Það er ekki oft sem maður eignast vinkonur á efri árum og þetta er virkilega skemmtileg viðbót í líf mitt.“

Tónleikarnir verða í félagsheimilinu Suðureyri á föstudag klukkan níu. „Við erum alveg að truflast við hlökkum svo til,“ segir Ólafía Hrönn að lokum.

Rætt var við Ólafíu Hrönn í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið og glænýtt lag með Gertrude and the Flowers í spilaranum hér fyrir ofan.