Starfsmenn Landspítala hvattir til að búa til sumarkúlu

21.07.2021 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Farsóttarnefnd Landspítala hefur gripið til víðtækra sóttvarnaráðstafana til að verja starfsemi spítalans, nú þegar ný bylgja kórónuveirufaraldursins er hafin. Heimsóknir verða takmarkaðar og starfsmenn eru hvattir til að búa til sumarkúlu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá upplýsingafulltrúa spítalans. 

Þrengt að heimsóknum

Þegar smitum tók að fjölga var gripið til þess ráðs að innleiða grímuskyldu á ný, bæði meðal starfsfólks spítalans og gesta. Þá þurfa allir starfsmenn sem koma frá útlöndum að fara í tvöfalda skimun með fimm daga vinnusóttkví á milli.

Frá og með deginum í dag verður skerpt enn á sóttvarnaráðstöfunum á Landspítalanum. Hver sjúklingur má aðeins fá einn gest í heimsókn á degi hverjum og börn undir 12 ára aldri eiga ekki að koma í heimsókn nema í samráði við stjórnendur hverrar deildar fyrir sig. Inniliggjandi sjúklingar mega ekki dvelja utan spítalans nema að vissum skilyrðum uppfylltum og mælst er til þess að sjúklingar sem koma á göngudeildir og dagdeildir, í viðtöl eða rannsóknir komi einir nema brýna nauðsyn beri til og þá einungis með einn fylgdarmann. 

120 starfsmenn í sóttkví

Á spítalanum liggur nú einn sjúklingur með COVID-19 og 220 eru undir eftirliti COVID-göngudeildar. Fjórir starfsmenn spítalans eru í einangrun og 120 í sóttkví. Farsóttarnefnd kannar nú möguleika á því að taka upp hraðpróf til að fjarvera starfsfólks sem bíður niðurstöðu úr sýnatöku ógni ekki öryggi á spítalanum. 

Nefndin beinir því til starfsfólks Landspítala að búa sér til sumarkúlu, forðast fjölmenn mannamót, skemmtistaði og veislur.