Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sjáðu mörkin úr leik Bandaríkjanna og Svíþjóðar á ÓL

Mynd: EPA-EFE / EPA

Sjáðu mörkin úr leik Bandaríkjanna og Svíþjóðar á ÓL

21.07.2021 - 12:48
Keppni í knattspyrnu er hafin á Ólympíuleikunum í Tókýó þó svo að leikarnir verði ekki formlega settir fyrr en á föstudag. Ríkjandi heimsmeistarar Bandaríkjanna fengu skell gegn Svíum í fyrsta leik mótsins, 3-0.

Ólympíuleikarnir hefjast formlega föstudaginn 23. júlí þegar opnunarhátíðin fer fram. Keppni í knattspyrnu kvenna hefst hins vegar í dag og á morgun mæta karlarnir til leiks. Leikur ríkjandi heimsmeistara Bandaríkjanna og Svíþjóðar, sem endaði í öðru sæti á síðustu Ólympíuleikum eftir tap gegn Þýskalandi fór fram í morgun. 

Bandaríkjakonur sáu aldrei til sólar í leiknum og lentu undir strax á 25. mínútu þegar Stina Blackstenius kom Svíþjóð í 1-0 með góðu skallamarki. Staðan var 1-0 í hálfleik en á 54. mínútu var Blackstenius aftur á ferðinni og kom Svíþjóð í 2-0. 

Svíar ráku svo síðasta naglann í kistu Bandaríkjanna á 72. mínútu með marki frá Linu Hurtig sem hafði komið inn á sem varamaður nokkru áður. Fyrir leikinn höfðu Bandaríkjakonur ekki tapað leik í 44 leikjum í röð. Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Svíþjóð og Bandaríkin spila í G-riðli mótsins ásamt Ástralíu og Nýja Sjálandi sem mætast síðar í dag. Kvennalið Breta vann lið Chile 2-0 í E-riðli þar sem Ellen White skoraði bæði mörkin og Brasilía vann stórsigur á Kína 5-0 í F-riðli. Marta skoraði tvö mörk fyrir Brasilíu og Debinha, Andressa Alves og Beatriz eitt mark hver. Japan og Kanada mætast í E-riðli og Zambía og Holland í F-riðli seinna í dag.