Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir yngra fólk veikt og óttast að ný bylgja sé hafin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, segir greinilegt að nú sé yngra fólk að veikjast af COVID-19. Hann segir hótel vísa smituðum gestum út og starfsfólk hans hafi þurft að sækja þá. 

Rauði krossinn opnaði í gær nýtt farsóttarhús fyrir einstaklinga sem eru sýktir af COVID-19. Farsóttarhótelið Lind var þá orðið svo til fullt. Í fyrradag greindust 44 kórónuveirusmit, 38 innanlands og sex á landamærunum.

Gylfi Þór segist undir það búinn að geta tekið á móti nokkur hundruð einstaklingum en vonar að til þess þurfi ekki að koma. Um sextíu gestir séu í farsóttarhúsum núna. 

„Þar af er um helmingur Íslendingar. Hinn hlutinn eru erlendir ferðamenn sem flestir voru á leið úr landi eftir að hafa komið hingað inn bólusettir og þar af leiðandi sloppið við þá skimun sem þurfti áður og þarf nú bráðlega aftur sem betur fer.“

Gylfi Þór segir að hluti gesta á sóttkvíarhótelum leiti þangað því þeir hafi ekki í önnur hús að venda. 

„Þar fyrir utan erum við með um 200 gesti á sóttkvíarhótelum sem eru þeir ferðamenn sem hingað koma óbólusettir og þurfa að vera í sóttkví í fimm daga.“ Hann segir hótel ekki taka á móti óbólusettum gestum. 

„Ef fólk greinist jákvætt inni á hóteli þá er gesti nánast hent út. Við höfum þurft að panta flutninga fyrir fólk sem hefur þess vegna verið látið sitja fyrir utan hótelið sitt þar sem það hefur verið að greinast jákvætt.“ 

Einkenni kröftug en fólk jafnar sig hratt

Gylfi Þór segir að fólk sem fær kröftug einkenni jafni sig á stuttum tíma en greinilegt sé að yngra fólk sé að veikjast, fólk milli tvítugs og þrítugs sem sækir skemmtistaðina.

Hann segir einkenni svipuð og í fyrri bylgjum, þau séu þó mjög kröftug. Þau komi helst í ljós á seinni viku veikinda og að niðurgangur sé nýr fylgifiskur þeirra. Hann fagnar því að einkenni séu ekki mjög alvarleg. 

Eftir eigi að koma í ljós hvort langtímaeinkenni koma fram hjá bólusettu fólki. Við séum að læra á lífið með veirunni. Gylfi Þór óttast að ný bylgja sé hafin í landinu, staðan virðist ekki góð. 

„Þetta mun halda áfram að grassera hjá okkur næstu daga og hugsanlega vikur. Vonandi verður hægt að koma böndum á þetta fljótt. Því að það eru það margir sem voru að greinast hérna utan sóttkvíar. Þannig að einhvers staðar er hún að láta á sér kræla, blessuð veiran.“

Meðan staðan sé þannig haldi smitum áfram að fjölga á næstu dögum og vikum.