Ólíklegt að Þórólfur skili minnisblaði í dag

21.07.2021 - 16:01
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fljótlega verði að koma í ljós hvort grípa þurfi til ráðstafana vegna mikillar fjölgunar smita undanfarið. Þórólfur segir ólíklegt að hann skili inn minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag en útilokar það ekki. Ólík viðhorf hafa heyrst hjá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna eftir að ákveðið var að herða aðgerðir á landamærunum. Sóttvarnalæknir segir ekkert hik á heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra en hann viti ekki um aðra.

Smitum fjölgar og einkum hjá bólusettu fólki. „Þetta minnir á veldisvöxt,“ segir Þórólfur. Lögð hefur verið áhersla á það undanfarið að fólk gæti sín en Þórólfur segir að í fyrri bylgjum hafi árangur ekki náðst fyrr en gripið var til opinberra sóttvarnaráðstafana. Þær fólu í sér samkomutakmarkanir, nálægðartakmarkanir og grímuskyldu svo dæmi séu nefnd.

Við erum komin með nokkuð góða mynd af því hvað virkar og hvað ekki.

Sóttvarnalæknir og hans fólk fylgjast með fjölgun smita og hversu alvarleg veikindi fólks eru. Þórólfur segir mikilvægt að ákveða fljótlega hvort grípa þurfi til aðgerða. „Við erum að tala um að nýta reynsluna sem við höfum fengið af viðureign okkar við faraldurinn til þessa og þeim aðferðum við höfum notað. Við erum komin með nokkuð góða mynd af því hvað virkar og hvað ekki. Við þurfum að nýta okkur það áfram.“

Margar útihátíðir eru fram undan og styttist í verslunarmannahelgina. „Allar samkomur þar sem fólk kemur saman og er kannski ekki alveg með fullu ráði auka á smithættuna. Það segir sig sjálft. Það verða þá að koma tilmæli frá hinu opinbera um að slíkt verði ekki haldið og það hefur ekki komið fram.“ Þórólfur segist skoða marga möguleika ef til þess kemur að grípa þurfi til  opinberra sóttvarnaráðstafana.

Minni virkni bólusetningar en stefnt var að

Margir bundu vonir við að hættan af völdum COVID væri að mestu að baki eftir bólusetningar. Sú er ekki raunin. 

„Bólusetningin er ekki að virka eins vel og við héldum,“ segir Þórólfur. „Hún verndar 60 prósent fyrir smiti. Þegar við lögðum af stað með bólusetningarnar voru upplýsingar um að það væri 80 til 90 prósent. Það er munur á því. Þetta þýðir það að það eru enn kannski 40 prósent af þeim sem eru bólusettir sem geta tekið smit. Bólusetningin kemur í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hjá mörgum en ekki öllum. Það eru tíu prósent enn þá sem geta fengið alvarlegar afleiðingar. Hlutföllin eru lægri og bólusetningin er að vernda marga en ef við fáum mikla útbreiðslu í samfélaginu þá getum við fengið mjög marga alvarlega veika.“

Óþol í samfélaginu endurspeglast í stjórnmálum

Þórólfur segir óþol í samfélaginu öllu eftir að vonir sem bundnar voru við bóluefni stóðust ekki að öllu leyti. Bólusetning hafi hjálpað en ekki jafn mikið og stefnt var að. Þórólfur segir að óþolið endurspeglist kannski líka í stjórnmálunum þar sem fólk sé farið að koma með nýjar nálganir. Spurður hvort það sé hik í ríkisstjórn svarar hann: „Það er ekki hik hjá heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra, ég hef rætt við þær báðar, en ég veit ekki um aðra.“

Skoða bóluefni og smit

Þórólfur segir erfitt að fullyrða hvort eitt bóluefni sé betra eða verra en annað. Það þurfi að skoða betur. Hann segir til skoðunar hvort að gefa þurfi fólki sem fékk Janssen-bóluefnið annan skammt.

„Flestir af þeim sem eru að greinast núna hafa verið bólusettir með Janssen-bóluefninu. Vel að merkja er það líka sá aldurshópur sem hefur aðallega verið bólusettur með Janssen og er að greinast. Það getur verið að þeir sem eru að greinast smitist tiltölulega skömmu eftir bólusetninguna. Það tekur kannski þrjár og jafnvel fjórar að fá bestu verndina eftir Janssen-bóluefnið. Við höfum verið að miða við tvær.“