„Hraðasti vöxtur í útbreiðslu veirunnar til þessa“

Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir útbreiðslu kórónuveirunnar vera komna í hraðari vöxt en í fyrri bylgjum faraldursins. Hann gerir ráð fyrir því að Ísland verði orðið rautt land í alþjóðlegri skilgreiningu á löndum næst þegar slíkt kort kemur út. Meta þurfi aðstæður á næstu dögum en reynslan sýni okkur að harðar aðgerðir beri sem skjótastan árangur.

Sjúkrahúsinnlögnum fjölgar í takt við fjölgun smita

„Maður hefur talsverðar áhyggjur. Við höfum séð að með fjölgun smita líða um sjö til fjórtan eða fimmtán dagar þar til sjúkrahúsinnlögnum fjölgar. Nú vorum við með sjúkrahúsinnlögn í gær, önnur innlögn er yfirvofandi núna og stöðugt fleiri eru að veikjast, “ sagði Víðir í Síðdegisútvarpinu í dag.

Harðar aðgerðir í skamman tíma virka best

Víðir segir að mikill erill hafi verið í sýnatökum í dag og því megi ætla að býsna margir komi til með að bætast í hópinn á morgun. Veiran sé komin í mikinn vöxt hér á landi, meiri en nokkurn tímann áður, og því þurfi að meta næstu skref. 

„Við höfum náttúrulega verið að reyna ýmislegt frá upphafi faraldursins en almennar aðgerðir skila mestum árangri. Við höfum séð það að harðar aðgerðir í skamman tíma virka best. En nú þurfa menn að liggja yfir þessu næstu daga og sjá, “ segir Víðir. 

Erfitt að segja til um komandi mannamót

Víðir bætir við að við séum þó að sjá árangur af bóluefnunum og því megi ekki afskrifa þau þrátt fyrir að þau valdi okkur vonbrigðum. Erfitt sé að segja til um komandi fjölmenn mannamót um verslunarmannahelgi en sóttvarnalæknir standi stöðugt í áhættumati. Víðir segir stóru spurninguna vera hversu alvarleg veikindi hinna sýktu verða og hvaða viðmið við viljum nýta til þess að taka ákvörðun um að grípa til aðgerða. 

Fríi okkar frá veirunni lokið í bili

Tilkynnt var um afléttingu allra takmarkana innanlands þann 25.júní síðastliðinn og hefur skemmtanalíf verið öflugt síðan og mikið hefur verið um hópamyndanir. Víðir segir að hugsanlega þurfi að herða og slaka til skiptis. Líta mætti svo á að veiran hafi verið í fríi frá því að tilkynnt var um afléttingarnar en nú sé fríinu lokið í bili. 

„Þetta er hundleiðinlegt. Ég held að við höfum öll verið á þeim stað þegar öllu var aflétt að þetta væri bara búið en staðreyndin er bara önnur, “ segir Víðir. Það sé ekki nóg að bera einungis ábyrgð á sjálfum sér í samfélagi mannanna og því þurfi að hugsa um næsta mann í baráttunni við veiruna.