Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gríðarlegur skellur þyrfti að blása Þjóðhátíð af

Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir / Aðsend mynd
Hörður Orri Grettisson, formaður Þjóðhátíðarnefndar segir að enn sé óhikað stefnt að því að halda hátíðina. Ekki hefur enn verið gripið til samkomutakmarkana vegna aukinnar útbreiðslu smita í landinu undanfarna daga. Það yrði þungur skellur ef til þess kæmi.

„Við stefnum ótrauð á að halda þessa þjóðhátíð. Hér eftir sem hingað til er þetta undir okkur sjálfum komið.  Við þurfum að huga að persónulegum sóttvörnum, spritta vel og vanda okkur í þessu. Þannig munum við alla vega koma í veg fyrir að við sjálf smitumst.“

Hörður segir miðasölu og skipulagningu, sem hafi staðið yfir frá áramótum, hafa gengið vel. Skipuleggjendur hátíðarinnar hafi undanfarið metið stöðuna dag frá degi á fundum með lögreglu og almannavörnum í Eyjum.

Hann segir að það hefði alvarlegar afleiðingar þyrfti að blása Þjóðhátíð af, annað árið í röð. 

„Það náttúrlega yrði gríðarlegt högg, sérstaklega fjárhagslega, fyrir ÍBV. Þetta er langstærsta fjáröflun félagsins. Allt barna og unglingastarf byggist upp á því að þessi hátíð takist vel,“ segir Hörður Orri.

„Það er fólk út um land sem að myndi örugglega tapa gríðarlega mikið á því og þetta samfélag hérna í Eyjum líka. Ferðaþjónusta, veitingastaðir og annað standa og falla mörg hver með þessarri helgi. Það fólk er væntanlega búið að panta inn fyrir helgina og slíkt. Þannig að þetta yrði bara gríðarlegt högg.“