Göngugatan er ekki göngugata

21.07.2021 - 09:17
Innlent · Akureyri · Bílar · mannlíf · Miðbær · Norðurland
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - Rúv
Varla er hægt að segja að göngugatan á Akureyri standi undir nafni því stóran hluta ársins er hún opin fyrir akandi umferð. Formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar segir fulla ástæðu til að endurskoða hvort breyta þurfi reglunum að einhverju leyti.

Samráð við hagsmunaaðila

Reglur bæjarins kveða á um að lokað sé á milli 11 og 17 yfir sumarmánuðina en annars er opið fyrir bílaumferð. 

Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar, segir að það hafi verið ákveðið í samráði við hagsmunaaðila í bænum. „Það var raunverulega samið við miðbæjarsamtökin fyrir fimm árum um hvernig fyrirkomulagið ætti að vera. Þetta var búið að vera þumalputtaregla, að þegar hitinn færi yfir 15 gráður væri keðjan hengd fyrir,“ segir Þórhallur.

Undanfarnar vikur hefur hiti verið yfir 15 stig dag eftir dag þannig að ef sú regla væri enn í gildi hefði göngugatan verið lokuð langt fram eftir kvöldi. Sú hefur ekki verið raunin.

Viðskiptin dali þegar gatan lokuð

Þórhallur segir að kaupmenn í göngugötunni vilji hafa bílaumferð í gegnum götuna. „Þeir sem sagt vilja meina að viðskiptin dali þegar það er ekki opið fyrir bílaumferð.“

Kaupmenn séu þó almennt hlynntir því að loka götunni þegar veðrið er eins gott og verið hefur en þrátt fyrir það er gatan opnuð fyrir bílaumferð klukkan fimm á daginn.

Ákveðin hætta fyrir börn

Í fyrrasumar var sett upp stórt leiksvæði í göngugötunni þannig að þar er mikið um börn að leik. Segir Þórhallur að ljóst sé að umferð um götuna geti skapað hættu og sumir bílstjórar aki þar allt of hratt. „Þess vegna finnst mér alveg full ástæða til þess að við endurskoðum þetta og mér finnst þessi þumalputtaregla með 15 gráðurnar helvíti góð en ég er ekki viss um að við fáum það í gegn, segir Þórhallur.