Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flest smit tengjast Bankastræti og hópi frá London

21.07.2021 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Flest kórónuveirusmitin sem greinst hafa að undanförnu tengjast skemmtistöðum í Bankastræti í Reykjavík og hópi sem kom frá London. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að töluverður leki sé á landamærunum þannig að smit komist inn í samfélagið hérlendis. Þórólfur segir ljóst hvaða tillögur hann leggur til ef hann telur þörf á að grípa til aðgerða. Hins vegar sé óvíst hvenær þess kunni að gerast þörf. Hann segir þó betra að bregðast við fyrr en síðar.

„Flest smitin tengjast skemmtistöðum í Reykjavík, í Bankastræti, og eins hópi sem kom frá London,“ segir Þórólfur í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur fréttamann. „Annars eru líka mörg mismunandi afbrigði sem segir að það eru margir sem hafa komið yfir landamærin sem hafa borið með sér smit. Það er einhver töluverður leki á landamærunum af smiti inn í samfélagið.“

Alls greindust 56 smit innanlands í gær og hafa ekki verið fleiri í nærri níu mánuði. 

Fullbólusettur á sjúkrahús vegna COVID-19

„Það var einn lagður inn á sjúkrahús í gær sem er búinn að vera veikur í einhvern tíma, lagður inn vegna lungnabólgu, það er fullbólusettur einstaklingur á sjötugsaldri. Þannig að þetta er að gerast eins og mátti kannski búast við,“ segir Þórólfur. Áður höfðu verið sagðar fréttir af konu sem lögð var inn á sjúkrahús vegna COVID-19.

„Ég met stöðuna þannig að við erum komin með talsvert og mikið samfélagslegt smit. Það er greinilegt,“ segir Þórólfur. Fólk hefur greinst með smit víða um landið. Smitin eru flest í fullbólusettu fólki. „Enn sem komið er erum við ekki með mjög marga alvarlega veika. Það eru ekki margar innlagnir yfirvofandi á Landspítalanum en það gæti breyst mjög hratt.“

Þórólfur segir að alvarleg veikindi geti komið upp með litlum fyrirvara. Hann er smeykur um að með aukinni útbreiðslu komist smit í minna verndaða hópa. Þá geti alvarlegum veikindum fjölgað.

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Anton Brink - RÚV
Skemmtistaðir í Bankastræti eru áberandi þegar kemur að smitum.

Sömu aðgerðir og áður ef þörf krefur

„Ég er í viðræðum við mitt fólk og við stjórnvöld um hvað er til ráða. Við erum þá sérstaklega að líta til þess hversu margir eru að veikjast alvarlega og hversu margar innlagnir eru yfirvofandi á Landspítalanum,“ segir Þórólfur. „Það er líka ljóst að ef við ætlum að ná árangri í að takmarka útbreiðsluna innanlands er betra að gera það fyrr en seinna, það verður erfiðara að eiga við það eftir því sem tíminn líður.“

Þórólfur segist skoða stöðuna og íhuga hvort og hvernig þurfi að bregðast við. Hann segir ómögulegt að segja til um hvenær það skýrist. Hann segir að hingað til hafi verið hert og létt á aðgerðum til skiptis. Ef grípa þarf til aðgerða þá verði þær með sama móti og reynst hafi vel hingað til.

Væri gott að losna við mikinn samgang fólks

Nokkrar útihátíðir eru um helgina og fleiri fram undan. Engin opinber tilmæli hafa verið gefin út og engar takmarkanir eru við lýði. „Auðvitað væri gott að geta losnað við þennan mikla samgang á fólki en það stendur þá upp á stjórnvöld, og mig að koma með tillögur um það. Við höfum líka verið að hvetja fólk til að gæta vel að sér í sóttvörnum.“ Það hafi þó ekki alveg skilað árangri því smitin breiðist út.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Bólusetning eykur viðnámsþrótt en bólusettir smitast þó.

Bólusetning eykur viðnámsþrótt en stöðvar ekki smit

Þórólfur segir að bólusetningin sé útbreidd og auki eflaust viðnámsþrótt í samfélaginu. Þó smitist bólusettir hérlendis. Frá Ísrael hafa borist fregnir um alvarleg veikindi meðal bólusettra. „Við sjáum að þetta Delta afbrigði er að valda okkur skráveifu núna.“

„Ef ég legg eitthvað til þá veit ég alveg hvað ég ætla að leggja til. Ég er ekki búinn að ákveða hvenær það verður lagt fram,“ segir Þórólfur. Hann getur þar af leiðandi ekki sagt til um hvort hann leggi til aðgerðir fyrir verslunarmannahelgina.

Smitin í gær eru fyrst og fremst innanlandssmit. Þórólfur segir ekki ljóst hver skiptingin er milli Íslendinga og ferðamanna. Smitin undanfarna daga hafa öll verið af Delta afbrigðinu. Ekki er þó búið að raðgreina smit gærdagsins.