Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Brýnir fyrir veiku fólki að fara ekki of snemma á fætur

21.07.2021 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Heimilislæknir segir grímunotkun, aukna sprittnotkun og tíðari handþvott hafa orðið til þess að minna hafi orðið um umgangspestir. Hún hvetur fólk til að halda því áfram og sýna þolinmæði gagnvart veikindum.

Þórdís Oddsdóttir, heimilislæknir segir fólk seint verða alveg óhult fyrir umgangspestum. Tímabil þeirra hafi þó færst nokkuð til og mörk þeirra orðið óljósari. 

„Það eru einhverjar svona öndunarfæra-veirusýkingar í gangi aðrar en COVID en það er raunverulega ekkert nýtt í sjálfu sér. Þetta virðist meira dreift yfir allt árið. Við erum ekki að sjá þessi skil eins og við sáum áður sem gerir erfiðara fyrir okkur að vita hvað er hvað.“ 

Gasmengun og frjókorn geta valdið að veiru- eða bakteríusýkingar vari lengur. Auðvelt sé að átta sig á frjókornatölunum en erfiðara sé að eiga við áhrif gasmengunar. Þórdís hvetur fólk til að drífa sig í skimun finni það fyrir flensueinkennum.

„Það gefur okkur mun betri möguleika á að greina á milli hvað er í gangi ef skimunin er neikvæð.“ Þórdís segir að fólk sem veikist þurfi að sýna þolinmæði, því það taki lengri tíma að jafna sig sé farið of snemma af stað.  

„Þannig að maður hvetur fólk til að taka þann tíma sem þarf til að jafna sig. Um leið biðlar maður til atvinnurekenda að vera þolinmóðir með sínu starfsfólki sem ég tel þá hafa verið generalt í gegnum COVID.“

Þórdís segir að mikilvægt sé að ástunda sprittnotkun og handþvott áfram. „Við höfum tekið vel á þessu áður, ég tel að við getum gert það núna og náð þessum smittölum niður aftur.“