Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfir 27 stiga hiti á Akureyri og Hallormsstað

20.07.2021 - 19:05
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Dagurinn í dag var með þeim allra heitustu fyrir austan og norðan í sumar. Hitinn fór mest í rúm tuttugu og sjö stig á Akureyri og í Hallormsstað. Fólk finnur ýmsar leiðir til að kæla sig ýmist í sjónum eða köldu Lagarfljótinu.

Atlavík er ein alvinsælasta baðströnd landsins þegar veðrið er eins og það hefur verið síðustu vikur. Í dag var víkin full af fólki sem ýmist flatmagaði í sólinni eða buslaði í köldu Lagarfljótinu. Þá er mikil aðsókn að tjaldstæðunum í Hallormsstaðaskógi og fólk ekkert að hreyfa sig milli staða í þessari blíðu.

En það er líka baðströnd við Eyjafjörð sem er að verða með þeim allra vinsælustu - hún er á Hauganesi. Og þar velja menn á milli þess að sitja í heitu pottunum eða skella sér í sjóinn. Og í dag mátti varla á milli sjá hvort þetta var á Hauganesi eða Tenerife - baðströndin gæti allavega verið hvar sem er í heiminum.

„Sjórinn er æði,“ sagði Lóa Maja Stefánsdóttir. „Þetta jafnast á við Tene, eða er jafnvel betra, hann er hreinn.“ Og Jón Benedikt, sem var að synda með dætrum sínum, giskaði á að sjórinn væri 12 gráður. „Þetta er þetta er alveg meiriháttar, svakalega flott.“

En vinunum Davíð og Jóni fannst sjórinn kaldur. „Manni er samt heitt þegar maður kemur úr sko. Það er kalt í sjónum.“ Og þeir létu sig hafa það og fóru aðra ferð í sjóinn, eins og flestallir sem nutu sólarinnar þarna í dag.