Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Við förum vel með það sem okkur þykir vænt um“

Mynd: Skapandi Sumarstörf í Kópavog / Sjávarmál - Sigrún Perla Gís

„Við förum vel með það sem okkur þykir vænt um“

20.07.2021 - 09:16

Höfundar

Sigrún Perla Gísladóttir stendur fyrir verkefninu Sjávarmál í Skapandi sumarstörfum í Kópavogi. Þar rannsakar hún samband okkar við sjóinn frá ýmsum sjónarhornum, talar við bæði listafólk, fræðimenn og sjósundkappa en líka hvali og höfrunga.

„Í verkefninu kanna ég og kynni aðferðir til að kynnast sjónum og eiga við hann einhvers konar samtal,“ segir Sigrún Perla, sem sagði frá verkefni sínu í Tengivagninum á Rás 1. ,,Útgangspunktur verkefnisins er sá að við förum vel með það sem okkur þykir vænt um. Því fleiri sem þykir vænt um sjóinn, því betur förum við með hann. Mér finnst þetta sérstaklega mikilvægt í tilfelli sjávarins því að hann á engan talsmann. Á fallegan hátt er hann bæði einskismannsland og okkar allra en þess vegna vantar hann stundum rödd. Við heyrum heldur ekki í honum nema á yfirborðinu en það er afskaplega mikið á seyði þarna niðri sem við vitum ekki.“

Sigrún Perla byrjaði á að taka viðtöl við fólk af ólíkum bakgrunni sem allt á sitt sérstaka samband við sjóinn en fljótlega vaknaði löngun til að heyra í sjávarverunum sjálfum. Hún fékk tækifæri til að fara til Húsavíkur, með nemendum í haffræði við Háskóla Íslands, þar sem hún lærði aðferðir sem notaðar eru við rannsóknir á sjávarspendýrum. Með hjálp hýdrófóns, hljóðnema sem má fara ofan í vatn, gat hún tekið upp neðansjávarhljóð. ,,Þar opnaðist fyrir mér nýr hljóðheimur,“ segir Sigrún Perla. 
 

Hvalasöngur er stærðfræðileg tónsmíð

Á upptökunum heyrðust alls kyns hljóð, hvalasöngur, loftbólur og bátaniður. ,,Þegar maður skoðar hljóðin í tölvunni sér maður falleg spektógrömm, eins konar myndir sem hljóðið teiknar. Hvalirnir teikna ótrúlega fallegar línur, þannig að maður getur bæði heyrt sönginn og séð hann myndrænt,“ segir Sigrún Perla. ,,Hvalasöngur er í rauninni eins og stutt tónverk sem eru í raun ótrúlega stærðfræðileg og hafa ákveðna uppbyggingu, þar sem einn ákveðinn tónn er svolítið eins og bókstafur í setningu hjá okkur.“ 

Markmið Sigrúnar Perlu er þó ekki að skilja hvað hvalirnir eru að segja, heldur læra af því hvernig þeir tala saman. Í útfærslu verkefnisins í Skapandi sumarstörfum stefnir hún á að búa til einn sameiginlegan hljóðheim úr viðtölunum og neðansjávarhljóðunum. ,,En það sem mig langar að gera er að hlusta líka á óhljóðin og ekki endilega hreinsa tökurnar of mikið,“ segir Sigrún Perla. ,,Fullkominn hvalasöngur er ekki það sem heyrist í sjónum einmitt núna, heldur eru ótrúlega mikil læti frá okkur. Við heyrum ekki hávaðann sem við færum ofan í sjó því sjávarflöturinn er eins og lokuð himna þar sem hljóðin berast hvorki upp né niður.“

Við erum hrædd um sjóinn

Ef til vill er samband Íslendinga við sjóinn blendið. Í gegnum aldirnar hefur hann verið undirstaðan í lífsafkomu þjóðarinnar en hann hefur einnig hirt mörg mannslíf. Þessar andstæður hafa verið Sigrúnu Perlu hugleiknar. 

,,Ég hef mikið verið að hugsa um samband okkar við sjóinn hér á Íslandi. Við virðumst vera svolítið brennd af þessum andstæðum, en mér finnst fallegt að skoða hvernig við höldum áfram að þykja vænt um sjóinn þrátt fyrir þær. Hann hefur tekið mikið frá okkur en líka gefið ótrúlega margt.“

Viðmælendur Sigrúnar Perlu eiga sameiginlegt að tala um hvað sjórinn sé stór, ógnvænlegur og kraftmikill en að sama skapi virðingarverður og tignarlegur. ,,Þau eiga það líka öll sameiginlegt að vera hrædd um sjóinn,“ bætir Sigrún Perla við. ,,Við erum alls ekki að hirða nógu vel um hann. Ég ræddi við haffræðing sem sagði beint út að hann væri að deyja.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skapandi Sumarstörf í Kópavog

Ekki fylgni milli þess að tala sama tungumál og koma vel fram hvert við annað

,,Við mannfólkið segjumst gjarnan vera búin að eyðileggja sjóinn og að nú ætlum við að bjarga honum en ég held það sé líka mikilvægt að við reynum að hlusta á sjóinn sjálfan og verurnar sem þar búa þó þær tali ekki okkar tungumál,“ segir Sigrún Perla. Ég held að þær séu með fullt af þeim svörum sem við leitum að.“

Hún segir að ekki sé alltaf fylgni milli þess að tala sama tungumál og að vera góður hver við annan. ,,En aftur á móti getum við tengt tilfinningalega við lag þó við skiljum það ekki, eða jafnvel notið tónlistar þar sem ekki eru notuð orð.“ Auk samskiptamáta hvalanna velti Sigrún Perla fyrir sér í hvaða takti þeir lifa, og tengir við loftslagsvá nútímans. ,,Við tengjum svo lítið við hraðann sem loftslagsbreytingar gerast á. Þegar hætta steðjar að á miklum hraða bregðumst við hratt við og erum með skjót óttaviðbrögð. En þó loftslagsvandinn sé vissulega að gerast hratt í stóra samhenginu sjáum við ekki breytingarnar dag frá degi heldur þurfum við að súmma aðeins lengra út. Breytingarnar eru heldur ekki alltaf sjónrænar, því ef koltvíoxíð væri svart þá sæjum við ekki út úr augunum,“ bætir hún við.

,,Mér finnst þessi tíma- og skalaspurning áhugaverð. Hvalir lifa í mun hægari takti en við mannfólkið. Hjörtu þeirra slá hægt og allt gerist svo hægt í þeirra heimi, sem við getum kannski lært af.“

Viðtalið við Sigrúnu Perlu má heyra í heild sinni hér að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Perla Gísladóttir
Frá innsetningu Sigrúnar Perlu í Vatnsdropanum í Gerðarsafni

Tengdar fréttir

Pistlar

Barnfóstra og götuljósmyndari

Leiklist

Hollt að kunna að vera leikhússgestur heima hjá sér

Mannlíf

Vinkonur hafi ólíkan tilgang eftir tímabilum