Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skýjað og súld vestanlands en allt að 25 stig eystra

20.07.2021 - 06:42
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Spáð er hægum vestan- og suðvestanáttum 3-10 metrum á sekúndu í dag en hvassara, allt að 18 metrum á sekúndu norðvestan til. Hvassast verður á Ströndum. Það getur verið varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Hiti verður á bilinu 10-25 stig, hlýjast á Suðaustur- og Austurlandi. Vestanlands verður skýjað og sums staðar dálítil súld en bjart með köflum annars staðar á landinu og hiti 8-15 stig.

Búast má við þokulofti hér og hvar við ströndina. Veðurstofan spáir svipuðu veðri á morgun en annað kvöld snýst í suðlægari áttir suðvestan til.

Hæg vestlæg átt er við gosstöðvarnar í Geldingadölum og gas berst því einkum til austurs. Gasmengunar gæti orðið vart á Höfuðborgarsvæðinu, í Ölfusi og Hvalfirði.

Seinni partinn verða suðvestan 5-10 metrar og fer gasið til norðausturs í átt að höfuðborginni að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV